Man Utd og Arsenal vilja Guehi - Osimhen gæti farið til Chelsea eða PSG - Geertruida gæti fylgt Slot til Liverpool
   sun 07. apríl 2024 23:07
Brynjar Ingi Erluson
Mainoo: Við gáfum þetta frá okkur
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Enski miðjumaðurinn Kobbie Mainoo var vonsvikinn með að hafa ekki landað sigri gegn Liverpool á Old Trafford í dag.

United hefur átt góða leiki gegn Liverpool á þessu tímabili en liðið var heppið að sleppa með stig í dag.

Liverpool fór illa með færi sín og gaf United fyrsta markið á silfurfati er Jarell Quansah gerði mistök sem Bruno Fernandes nýtti og skoraði með löngu skoti, yfir Caoimhin Kelleher og í netið.

Mainoo skoraði sjálfur stórkostlegt mark í síðari hálfleiknum en United fékk á sig vítaspyrnu undir lokin er Aaron Wan-Bissaka gerðist brotlegur í teignum og sá þar Mohamed Salah til þess að Liverpool færi ekki tómhent heim.

„Við vorum vonsviknir. Við lögðum hart að okkur að komast inn í leikinn eftir erfiðan fyrri hálfleik. Við gáfum þetta frá okkur og auðvitað vildum við stigin þrjú því þetta var stór leikur svona á lokakafla tímabilsins. Það er því erfitt að taka því að taka ekki öll stigin í dag.“

„Aftur eru það vítaspyrnurnar sem kosta okkur en við verðum að halda áfram að vinna í því að laga þessi smáatriði sem halda áfram að kosta okkur og reyna að verða betri.

„Þegar Aaron Wan-BIssaka gaf mér boltann þá hélt ég að markvörðurinn myndi ekki halda það að ég myndi reyna að skora þannig ég lét bara vaða og sem betur fer fór boltinn inn.“


Mainoo viðurkennir mistök í fyrra marki Liverpool en hann segir að það hafi verið misskilingur í talanda milli leikmanna.

„Í þessu marki þá átti ég að vera á Virgil van Dijk ásamt Rasmus Höjlund og við áttum að skilja Luis Díaz eftir. Við áttum að koma þessu frá, þannig þetta var smá misskilningur og svona smáatriði kosta okkur.“

Erik ten Hag, stjóri United, hvatti leikmenn til að skila betri frammistöðu í síðari hálfleiknum, en liðið fer aðeins með stig úr leiknum. Það er nú ellefu stigum frá Aston Villa og Tottenham í baráttunni um Meistaradeildarsæti og vonarneistinn því ekki mikill í augnablikinu.

„Hann sagði okkur að koma okkur aftur inn í leikinn. Það var eitthvað jákvætt en við vorum undir og það er erfitt að taka því í svona leikjum. Þú verður alltaf að reyna að finna eitthvað gegn svona liðum, því þetta var svo stór leikur.“

„Það eru fullt af mikilvægum leikjum fram undan, þannig við verðum að reyna okkar besta og koma saman sem lið,“
sagði Mainoo.
Athugasemdir
banner