Man Utd og Arsenal vilja Guehi - Osimhen gæti farið til Chelsea eða PSG - Geertruida gæti fylgt Slot til Liverpool
   sun 07. apríl 2024 09:30
Brynjar Ingi Erluson
Tveir af efnilegustu leikmönnum Fram framlengja
Mynd: Fram
Framarar tilkynntu frábær tíðindi fyrir félagið og stuðningsmenn þess í gær er Breki Baldursson og Þengill Orrason framlengdu samninga sína við félagið.

Breki er 17 ára gamall miðjumaður sem kemur upp úr unglingastarfi Fram en hann spilaði sinn fyrsta deildarleik með félaginu fyrir tveimur árum.

Á síðasta tímabili fékk hann stærra hlutverk í liðinu og þá sérstaklega þegar Ragnar Sigurðsson tók við um mitt sumar. Breki byrjaði tíu leiki undir stjórn Ragnars, en hann hafði komið sjö sinnum af bekknum fyrri hluta tímabilsins.

Breki er talinn með efnilegustu miðjumönnum landsins og hefur hann spilað 12 landsleiki fyrir yngri landslið Íslands.

Það er því mikið ánægjuefni fyrir Fram að hann sé nú búinn að skrifa undir nýjan þriggja ára samning við félagið.

Hann er ekki sá eini því annar leikmaður sem sprakk út á síðustu leiktíð framlengdi einnig um þrjú ár en það er hinn 18 ára gamli Þengill Orrason.

Þengill kom frá Fjölni fyrir þremur árum og spilaði sinn fyrsta mótsleik fyrir Fram eftir að Ragnar tók við keflinu. Hann lék alls fimm leiki og skoraði tvö mörk í fallriðlinum, en eitt þeirra var eitt eftirminnilegasta mark sumarsins í leik gegn ÍBV.

Miðvörðurinn var í kjölfarið valinn í æfingahóp U19 ára landsliðsins.

Fram hefur leik í Bestu deildinni í dag þegar liðið fær Vestra í heimsókn á Lambhagavöll en það má fastlega gera ráð fyrir því að Breki og Þengill verði í liði Framara.
Athugasemdir
banner
banner
banner