Man Utd og Arsenal vilja Guehi - Osimhen gæti farið til Chelsea eða PSG - Geertruida gæti fylgt Slot til Liverpool
banner
   mán 08. apríl 2024 07:00
Brynjar Ingi Erluson
Joe Kinnear er látinn - „Gangi þér vel í Valhöll, Joe“
Joe Kinnear
Joe Kinnear
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Fyrrum fótboltamaðurinn og þjálfarinn, Joe Kinnear, er látinn, 77 ára að aldri.

Kinnear er þekkt nafn í breska fótboltanum en hann lék 196 leiki fyrir Tottenham Hotspur frá 1965 til 1975.

Írinn var í liði Tottenham sem vann Evrópukeppni félagsliða árið 1972 en hann vann einnig deildabikarinn tvisvar og enska bikarinn einu sinni.

Kinnear spilaði sem varnarmaður og lék alls 26 landsleiki fyrir Írland, en eftir ferilinn fór hann út í þjálfun þar sem honum tókst einnig að skapa sér ágætlega stórt nafn.

Fyrsta verkefni hans var landslið Indlands sem hann stýrði frá 1983 til 1984 og því næst Nepal.

Hann stýrði Doncaster Rovers til bráðabirgða árið 1989 og tók síðan við Wimbledon árið 1992, en það var þar sem hann skapaði sér nafn í þjálfun.

Kinnear er einn og ef ekki besti þjálfari í sögu gamla Wimbledon-liðsins.

Hann stýrði liðinu frá 1992 til 1999 og náði þar einum besta árangri í sögu félagsins er liðið hafnaði í 6. sæti ensku úrvalsdeildarinnar og þá komst það einnig í undanúrslit í báðum bikarkeppnum. Fjórum sinnum á þessum sjö árum hafnaði liðið í topp tíu í deildinni.

Næst tók hann við Luton Town, sem var þá í C-deildinni á Englandi, en hann hafði verið yfirmaður fótboltamála hjá félaginu áður en hann lét þjálfarann fara og réði sjálfan sig sem stjóra.

Kinnear tókst ekki að bjarga Luton frá falli það tímabilið, en gjörbreytti hópnum um sumarið og kom liðinu beint aftur upp í C-deildina. Á síðasta tímabili hans hafnaði liðið í 9. sæti áður en félagið var selt. Kinnear og aðstoðarmaður hans voru báðir látnir taka þennan fræga poka sem allir tala um.

Árið 2004 stýrði hann Nottingham Forest í nokkra mánuði og snéri síðan aftur í þjálfun er hann var ráðinn stjóri Newcastle september eftir að Kevin Keegan var látinn fara.

Kinnear var líflegur stjóri, bæði á hliðarlínunni og í viðtölum, en hann starfaði í raun aðeins í rúma tvo mánuði hjá Newcastle áður en hann veiktist skyndilega. Kinnear fór í hjartaaðgerð og þjálfaði ekki meira á tímabilinu áður en samningur hans rann út í maí.

Á tíma hans hjá Newcastle var hann þekktur fyrir að bera nöfn leikmanna sinna vitlaust, en Yohan Cabaye var kallaður Kebab, Hatem Ben Arfa fékk Ben Afro og Charles N'Zogbia var kallaður Insomnia, sem má þýða á íslensku sem svefnleysi. Þá blótaði hann ítrekað í viðtölum og blaðamannafundum og var ekki hræddur við að láta blaðamenn heyra það.

Fjórum árum síðar snéri hann aftur til Newcastle en þá sem yfirmaður fótboltamála. Því hlutverki sinnti hann í um það átta mánuði áður en hann sagði af sér.

Kinnear barðist við heilabilun frá 2015 en veikindin urðu honum að bana um helgina.

Joey Barton er einn þeirra sem spiluðu undir stjórn Kinnear hjá Newcastle, en hann kvaddi hann með langri færslu á X.

„Hann var algerlega frábær. Ég vann bara með honum í stuttan tíma hjá Newcastle áður en hann fékk hjartaáfall. Frábær náungi, sem hafði mikla þekkingu á leiknum, elska þetta liðsumhverfi og elskaði að gantast. Fótboltinn hefur tapað öðrum góðum og annar leikmaður sem fjölskylda hefur átt í erfiðleikum með að fá stuðning frá ensku leikmannasamtökunum í gegnum þessi erfiðu veikindi og það þrátt fyrir öll þau sönnunargögn sem sýna hvað gerist þegar þú skallar bolta.

„Ég er viss um að hann verður kvaddur á frábæran hátt. Blaðamannafundur hans hjá Newcastle mun alltaf vera ein af mínum uppáhalds minningum um hann þar sem hann hélt engu aftur. Gangi þér vel í Valhöll, Joe,“
sagði Bartonm en hér fyrir neðan má hlusta á þennan sögulega blaðamannafund.


Athugasemdir
banner
banner
banner