Man Utd og Arsenal vilja Guehi - Osimhen gæti farið til Chelsea eða PSG - Geertruida gæti fylgt Slot til Liverpool
banner
   fim 11. apríl 2024 20:56
Ívan Guðjón Baldursson
Evrópudeildin: Liverpool steinlá á Anfield
Mynd: Getty Images
Mynd: Atalanta
Mynd: EPA
Mynd: Getty Images
Það voru afar óvænt úrslit sem litu dagsins ljós þegar Liverpool tók á móti Atalanta í fyrri leik liðanna í 8-liða úrslitum Evrópudeildarinnar.

Bæði lið fengu færi til að skora í fyrri hálfleik en það var Gianluca Scamacca sem kom boltanum í netið. Skot hans var ekki sérlega gott en markið skrifast að stórum hluta á Caoimhin Kelleher sem átti að gera betur.

Jürgen Klopp gerði þrefalda skiptingu á liði Liverpool í leikhlé en ekki tókst heimamönnum að setja boltann í netið. Þess í stað skoraði Scamacca aftur og tvöfaldaði hann þannig forystu gestanna. Í þetta sinn sluppu Scamacca og Charles De Ketelaere innfyrir vörn Liverpool til að skora.

Mohamed Salah hélt að hann hefði minnkað muninn fyrir Liverpool en það var ekki dæmt mark vegna rangstöðu og í kjölfarið innsiglaði Mario Pasalic sögulegan sigur Atalanta með þriðja og síðasta marki leiksins, þegar hann fylgdi skoti Ederson eftir með marki af stuttu færi.

Liverpool reyndi að minnka muninn á lokakaflanum en það gekk ekkert upp hjá lærlingum Klopp og tókst þeim ekki að skora. Atalanta fer því inn í seinni leikinn á heimavelli með þriggja marka forystu.

Það var annað enskt félag sem mætti til leiks í 8-liða úrslitum í kvöld, þar sem West Ham United heimsótti gríðarlega sterkt lið Bayer Leverkusen til Þýskalands.

Hamrarnir sáu varla til sólar og voru algjörlega yfirspilaðir frá fyrstu til síðustu mínútu. Þeir vörðust þó hetjulega og var staðan enn markalaus þegar komið var inn á lokakafla leiksins þrátt fyrir urmul marktilrauna heimamanna.

Leverkusen tókst þó loksins að brjóta ísinn þegar Jonas Hofmann kom inn af bekknum og skoraði á 83. mínútu, áður en hann lagði svo upp annað mark fyrir Victor Boniface, sem kom einnig inn af bekknum, í uppbótartíma.

Lærisveinar David Moyes áttu aldrei möguleika í kvöld og gerðu vel að fá ekki meira en tvö mörk á sig.

Í Mílanó var hörkuslagur í boði þar sem AC Milan og AS Roma mættust í ítölskum stórleik.

Miðvörðurinn Gianluca Mancini skoraði eina markið í jöfnum fyrri hálfleik með skalla eftir hornspyrnu Paulo Dybala. Milan sótti meira í síðari hálfleik en Rafael Leao og félögum tókst ekki að skora eða skapa sérlega mikla hættu. Þéttur varnarmúr Rómverja hélt og skóp flottan sigur á útivelli.

Að lokum hafði Benfica betur gegn Marseille er liðin mættust í Portúgal, þar sem Rafa Silva og Angel Di Maria sáu um markaskorunina fyrir heimamenn.

Pierre-Emerick Aubameyang minnkaði muninn fyrir gestina frá Frakklandi í síðari hálfleik og urðu lokatölur 2-1 í jafnri og rólegri viðureign.

Liverpool 0 - 3 Atalanta
0-1 Gianluca Scamacca ('38 )
0-2 Gianluca Scamacca ('60 )
0-3 Mario Pasalic ('83 )

Bayer 2 - 0 West Ham
1-0 Jonas Hofmann ('83 )
2-0 Victor Boniface ('91 )

Milan 0 - 1 Roma
0-1 Gianluca Mancini ('17 )

Benfica 2 - 1 Marseille
1-0 Rafa Silva ('16 )
2-0 Angel Di Maria ('52 )
2-1 Pierre Emerick Aubameyang ('67 )
Athugasemdir
banner
banner
banner