Man Utd og Arsenal vilja Guehi - Osimhen gæti farið til Chelsea eða PSG - Geertruida gæti fylgt Slot til Liverpool
banner
   sun 14. apríl 2024 18:21
Brynjar Ingi Erluson
Strákarnir hans Óskars unnu annan leik sinn - Davíð Kristján með stoðsendingu í sigri
Óskar Hrafn byrjar vel í Noregi
Óskar Hrafn byrjar vel í Noregi
Mynd: Haugesund
Davíð Kristján lagði upp í sigri
Davíð Kristján lagði upp í sigri
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kristall Máni og félagar nálgast dönsku úrvalsdeildina
Kristall Máni og félagar nálgast dönsku úrvalsdeildina
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Óskar Hrafn Þorvaldsson og lærisveinar hans í Haugesund unnu annan leik sinn í norsku úrvalsdeildinni er liðið lagði Tromsö að velli, 1-0, í dag.

Sory Diarra skoraði eina mark liðsins á 10. mínútu. Anton Logi Lúðvíksson spilaði allan leikinn á miðsvæðinu og þá kom Hlynur Freyr Karlsson inn af bekknum í síðari hálfleik.

Haugesund hefur unnið tvo af fyrstu þremur leikjum tímabilsins en það situr í 4. sæti með 6 stig.

Brynjar Ingi Bjarnason var í byrjunarliði Ham/Kam sem tapaði fyrir Rosenborg, 1-0. Viðar Ari Jónsson kom inn af bekknum á lokamínútum leiksins. Ham/Kam hefur aðeins náð í eitt stig úr fyrstu þremur leikjunum.

Brynjólfur Andersen Willumsson og Hilmir Rafn Mikaelsson komu báðir inn af bekknum í 2-0 tapi Kristiansund gegn Molde. Kristiansund er með 4 stig.

Patrik Sigurður Gunnarsson stóð í marki Viking sem gerði 1-1 jafntefli við Brann. Viking er með 4 stig.

Alfons Sampsted spilaði síðasta hálftímann er Twente tapaði fyrir Ajax, 2-1, í hollensku úrvalsdeildinni. Kristian Nökkvi Hlynsson var ekki með Ajax í dag.

Ajax er í 5. sæti með 48 stig en Twente í 3. sæti með 60 stig.

Davíð Kristján byrjar frábærlega - Íslendingarnir í SönderjyskE ætla upp

Davíð Kristján Ólafsson lagði upp annað mark Cracovia í 3-1 sigri liðsins á Jagiellonia í pólsku úrvalsdeildinni. Blikinn hefur átti stórkostlega byrjun með liðinu síðan hann kom frá Kalmar en Cracovia er í 12. sæti með 32 stig.

Elías Rafn Ólafsson hélt hreinu er Mafra gerði markalaust jafntefli við Feirense í portúgölsku B-deildinni. Þetta var í sjöunda sinn sem hann heldur hreinu á tímabilinu en Mafra er í 9. sæti með 39 stig.

Arnór Ingvi Traustason byrjaði hjá Norrköping sem vann GAIS, 1-0, í sænsku úrvalsdeildinni. Ísak Andri Sigurgeirsson kom inn af bekknum í síðari hálfleik. Þetta var fyrsti sigur liðsins á tímabilinu.

Kolbeinn Þórðarson var í liði Gautaborgar sem lagði Kalmar, 1-0. Adam Ingi Benediktsson var á bekknum en þjálfarinn kýs frekar að nota hinn 18 ára gamla Elis Bishesari í markinu. Gautaborg er með 3 stig.

Þórir Jóhann Helgason byrjaði í markalausu jafntefli Eintracht Braunschweig og Hannover í þýsku B-deildinni. Braunschweig er í 15. sæti, rétt fyrir ofan fallsæti, þegar fimm leikir eru eftir.

Lærisveinar Freys Alexanderssonar í Kortrijk töpuðu fyrir Charleroi, 2-1, í fallriðli belgísku úrvalsdeildarinnar. Kortrijk er í næsta neðsta sæti riðilsins með 25 stig þegar fjórir leikir eru eftir.

Bjarki Steinn Bjarkason og Mikael Egill Ellertsson voru í byrjunarliði Venezia sem vann Birki Bjarnason og félaga í Brescia, 2-0, í Seríu B á Ítalíu.

Báðir fóru af velli í síðari hálfleiknum og þá kom Birkir inn af bekknum þegar hálftími var eftir. Venezia er í 3. sæti með 61 stig en Brescia í 7. sæti með 45 stig.

Sverrir Ingi Ingason var í banni er Midtjylland gerði 2-2 jafntefli við FCK í dönsku úrvalsdeildinni. Hann var ekki með vegna uppsafnaðra gulra spjalda en Orri Steinn Óskarsson var í hópnum hjá FCK og kom við sögu í síðari hálfleiknum.

FCK jafnaði úr vítaspyrnu undir lok leiks og bjargaði þannig stigi en FCK er í 3. sæti með 46 stig á meðan Midtjylland er í 2. sæti með 52 stig.

Mikael Neville Anderson byrjaði hjá AGF sem gerði 2-2 jafntefli við Bröndby. AGF tókst heldur betur að stríða toppliðinu í meistarariðli dönsku úrvalsdeildarinnar en Bröndby er þrátt fyrir það á toppnum með 52 stig. AGF er í 5. sæti með 38 stig.

Íslendingarnir í SönderjyskE eru þá nær því að komast upp í úrvalsdeildina eftir að liðið vann 2-0 sigur á Fredericia í B-deildinni í dag.

Kristall Máni Ingason spilaði allan leikinn með SönderjyskE en þeir Atli Barkarson og Daníel Leó Grétarsson voru ekki með í dag. SönderjyskE er á toppnum með 55 stig, tveimur sigrum frá því að tryggja sig upp.
Athugasemdir
banner
banner
banner