Man Utd og Arsenal vilja Guehi - Osimhen gæti farið til Chelsea eða PSG - Geertruida gæti fylgt Slot til Liverpool
   mán 15. apríl 2024 21:48
Ívan Guðjón Baldursson
Ziyech skoraði glæsimark - Icardi næstmarkahæstur
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Alanyaspor 0 - 4 Galatasaray
0-1 Baris Yilmaz ('56)
0-2 Hakim Ziyech ('61)
0-3 Baris Yilmaz ('72)
0-4 Mauro Icardi ('83)
Rautt spjald: Leroy Fer, Alanyaspor ('64)

Galatasaray trónir á toppi tyrknesku deildarinnar með tveggja stiga forystu á Fenerbahce, þegar sex umferðir eru eftir af tímabilinu.

Galatasaray og Fenerbahce eru langsterkustu liðin í deildinni þar sem þau eru rúmlega 30 stigum fyrir ofan Trabzonspor og Besiktas sem verma þriðja og fjórða sæti.

Liðið heimsótti Alanyaspor í dag sem var búið að sigra fjóra deildarleiki í röð og var staðan markalaus eftir bragðdaufan fyrri hálfleik.

Okan Buruk þjálfari Galatasaray gerði tvöfalda skiptingu í leikhlé og breytti um leikkerfi, sem skilaði sér með talsvert betri frammistöðu lærisveina hans.

Baris Yilmaz kom Galatasaray yfir og tvöfaldaði Hakim Ziyech, sem er hjá félaginu á láni frá Chelsea, forystuna með glæsimarki skömmu síðar.

Ziyech hefur verið að glíma við erfið vöðvameiðsli á tímabilinu og vonast til að ná að klára leiktíðina án frekari vandræða.

Leroy Fer, fyrrum leikmaður Swansea City, QPR og Norwich, fékk að líta rauða spjaldið á 64. mínútu og skildi þannig samherja sína í Alanyaspor eftir leikmanni færri á lokakaflanum, sem hjálpaði ekki gegn sókndjörfum gestunum.

Baris Yilmaz skoraði sitt annað mark áður en Mauro Icardi setti fjórða og síðasta mark leiksins, en hann er næstmarkahæstur í deildinni með 19 mörk, einu marki á eftir Edin Dzeko.

Davinson Sanchez, Tanguy Ndombele og Wilfried Zaha byrjuðu á bekknum hjá Galatasaray og var skipt inn þegar tók að líða á seinni hálfleikinn.

Carlos Vinicius og Tete voru þá ónotaðir varamenn í stjörnum prýddu liði Galatasaray, sem byrjaði meðal annars með Serge Aurier, Lucas Torreira og Dries Mertens í byrjunarliðinu.

Pione Sisto, fyrrum leikmaður Midtjylland og Celta Vigo, kom einnig við sögu í tapliði Alanyaspor.
Athugasemdir
banner
banner