Varane, Diaz, Matip, Yamal, Davies og Rashford koma við sögu
   fös 03. apríl 2009 11:39
Magnús Már Einarsson
2.deild: Hvað er að frétta úr Sandgerði?
Kristófer Sigurgeirsson.
Kristófer Sigurgeirsson.
Mynd: Fótbolti.net - Vilbogi M Einarsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hörður Snævar Jónsson
Mynd: Fótbolti.net - Jón Örvar Arason
Þá er komið að liðnum "Hvað er að frétta?" hér á Fótbolti.net en þar kíkjum við á stemninguna hjá liðum í fyrstu, annarri og þriðju deild.

Í dag er ferðinni heitið til Sandgerðis en Kristófer Sigurgeirsson þjálfari Reynis svaraði nokkrum spurningum.


Hvernig er stemningin í Sandgerði þessa dagana?
Hún er nú bara askoti fín. Það er byrjað að vora og þá styttist í fótboltavertíðina.

Eru miklar breytingar á liði ykkar frá því síðastliðið sumar?
Tja, ef þér finnst þrettán leikmenn farnir sem komu við sögu í leikjunum í fyrra einhverjar breytingar þá má segja það.
En við höfum nú fengið hörku fótboltamenn í staðinn. Hversmanns hugljúfann Kristján Óla Sigurðsson, en margir kannast við hann úr Breiðablik, Óli „The Gun“ Berry er kominn aftur eftir erfið bakmeiðsli, Sigurður Ingi frá KFS hefur komið mér verulega á óvart og mun standa sig í sumar, Habbi Rú hefur verið lánaður aftur til okkar frá Keflavík og svo má ekki gleyma undrabarninu frá Grænhöfðaeyjum honum Alex Gomes Brito en hann kom nú ekki upphaflega til að spila fótbolta heldur til að leita sér að vinna, datt svo inn á æfingu hjá okkur og er mjög frambærilegur knattspyrnumaður, og svo nú seinast Sinisa Kekic sem þarf nú ekki að kynna fyrir íslenskum fótboltaáhugamönnum.

Má búast við að fleiri leikmenn muni bætast í leikmannahóp ykkar fyrir sumarið?
Við eigum eftir að bæta við okkur eitthvað aðeins.

Sinisa Valdimar Kekic kom til ykkar á dögunum. Er ekki mikill styrkur að fá þennan reynslubolta til Reynis?
Það er auðvitað frábært að fá Kela í Sandgerði og hef ég heyrt að bæjarbúar séu himinlifandi yfir þessum fréttum.
Frábær fótboltamaður sem á eftir að passa inn í liðið eins og rjómi á karamellubúðing.

Þú tókst við liðinu síðastliðið haust. Hvernig hafa fyrstu mánuðirnir verið í starfinu?
Þeir hafa verið mjög skemmtilegir, búinn að kynnast fullt af skemmtilegu fólki og er alveg greinilegt að það er harður kjarni í kringum liðið hjá okkur sem vill árangur og er það mitt að standa undir því, sem og auðvitað leikmanna minna.

Ætlar þú að spila sjálfur í sumar?
Það hefur verið stefnan hjá mér allan tímann, en ég á mér nokkuð langa sögu með bólgur í kringum nárann á mér og var ég skoðaður fyrir stuttu og hafa varla sést svona bólgur síðan Gústi Gylfa kom síðast í tékk. Ég fór í góða sprautumeðferð og krosslegg ég nárann að ég geti farið á fullt innan tíðar. Annars verður maður bara bætandi á sig á hliðarlínunni með nammipokann eins og sumir þjálfarar hafa gert í gegnum tíðina.

Hvernig hefur undirbúningstímabilinu hjá ykkur verið háttað?
VIð byrjuðum um miðjan nóvember og var ansi lítill kjarni sem stundaði þetta að krafti fram að áramótum. En eftir áramótin hefur fjölgað á æfingum og erum við loks núna komnir með fínan æfingahóp. Höfum æft tvisvar í viku í Reykjaneshöllinni á ekki svo kristilegum tímum eða 21:20 á mánudögum og svo 06:30 á fimmtudögum en þetta er það einu sem við fáum í höllinni svo við nýtum það eins og best verður á kosið. Svo höfum við verið í Sandgerði annað hvort á sparkvellinum eða í lyftingasalnum. Einnig höfum við synt mjög mikið en ég tel að sund geti nýst fótboltamönnum mjög vel. Hjálpar vel til með þolið sem og lítil meiðslahætta.

Ertu sáttur við spilamennsku liðsins í Lengjubikarnum og í æfingaleikjum til þessa?
Það er nú ekki hægt að segja að Lengjubikarinn hafi farið vel á stað hjá okkur, við höfum tapað báðum leikjunum svo maður er nú ekki alveg sáttur þar. En ég hef fulla trú á að við séum á réttri leið þó svo úrslitin séu okkur ekki hagstæð þessa dagana.
Æfingaleikirnir hafa verið upp og ofan en auðvitað stendur uppúr jafnteflið við Keflavík í vetur en það sýndi mér að það býr hellingur í þessu liði og er það mitt að ná því út í hverjum einasta leik í sumar.

Hver eru markmið ykkar fyrir sumarið?
Með þeim leikmönnum sem við erum að bæta við okkur þessa dagana þá ætti nú að vera nokkuð ljóst hvert við stefnum þó svo við höfum ekki sest niður saman og sett okkur markmið fyrir sumarið.

Er einhver leikmaður úr liði ykkar sem þú telur að eigi eftir að springa út í sumar?
Nei, ég vona að enginn muni bæta svo mikið á sig :)

Hvaða lið telur þú að sé sigurstranglegast í 2. deildinni í sumar?
Ég ætla rétt að vona að við verðum nú að berjast þarna í efri kantinum en annars hafa Njarðvíkingarnir verið að ná mjög góðum úrslitum núna í vor og kemur það þeim pottþétt til góða að spila í efri deildarbikarnum. Grótta hefur nokkra eðal spilara og ekki sakaði að fá Kristján Finnboga í markið (eða senterinn). Hvöt sem sló í gegn í fyrra heillaði mig þegar þeir völtuðu yfir okkur um daginn og svo má ekki gleyma bræðrum okkar úr Garðinum en þeir eiga örugglega eftir að bæta við sig einhverjum mannskap. Annars væri best fyrir ykkur að hafa samband við Garðar Gunnar Ásgeirsson þjálfara hjá Leikni en hann er gangandi alfræðirit um 1. og 2. deildina.

Eitthvað að lokum?
Nei, veistu ég held ekki, þetta er orðið mjög langt og er ég hræddur um að fólk setji mig í sama flokk og Arnar Grétars úr Blikunum en hann á öll lengstu viðtölin hér á fotbolta.net, takk fyrir mig og sjáumst á vellinum í sumar.
Athugasemdir
banner
banner
banner