Varane, Diaz, Matip, Yamal, Davies og Rashford koma við sögu
banner
   þri 05. mars 2024 21:55
Ívan Guðjón Baldursson
Meistaradeildin: Kane og Mbappé skinu skært á stóra sviðinu
Mynd: Getty Images
Mynd: EPA
FC Bayern og PSG eru komin í 8-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu eftir að stórstjörnurnar Harry Kane og Kylian Mbappé skoruðu sitthvora tvennuna.

Kane er því kominn með 33 mörk í 33 leikjum í öllum keppnum á tímabilinu, á meðan Mbappe á 34 mörk í 34 leikjum.

Kane skoraði tvennu í þægilegum 3-0 sigri gegn Lazio, eftir óvænt tap í fyrri leiknum í Róm.

Bæjarar lentu ekki í vandræðum, þó að Ciro Immobile hafi komist nálægt því að taka forystuna fyrir Lazio skömmu áður en Kane setti fyrsta mark leiksins.

Thomas Müller komst einnig á blað í sigrinum eftir að hann skallaði skottilraun frá Matthijs de Ligt í netið eftir uppgefinn uppbótartíma í fyrri hálfleik.

PSG lenti heldur ekki í vandræðum í sinni viðureign, sem var á útivelli gegn Real Sociedad, eftir 2-0 sigur í fyrri leiknum á heimavelli.

Mbappe skoraði snemma í sitthvorum hálfleiknum til að koma PSG í tveggja marka forystu í leik sem var annars frekar jafn.

Heimamenn áttu góðar tilraunir en þeim tókst ekki að minnka muninn fyrr en á 89. mínútu og urðu lokatölurnar 1-2 á Spáni.

FC Bayern 3 - 0 Lazio (3-1 samanlagt)
1-0 Harry Kane ('38)
2-0 Thomas Muller ('45+2)
3-0 Harry Kane ('66)

Real Sociedad 1 - 2 PSG (1-4 samanlagt)
0-1 Kylian Mbappe ('15)
0-2 Kylian Mbappe ('56)
1-2 Mikel Merino ('89)
Athugasemdir
banner
banner