Varane, Diaz, Matip, Yamal, Davies og Rashford koma við sögu
banner
   fim 07. mars 2024 06:00
Brynjar Ingi Erluson
Owen um Alonso: Væri hættulegt fyrir hann að fara til Liverpool
Xabi Alonso
Xabi Alonso
Mynd: EPA
Michael Owen
Michael Owen
Mynd: Getty Images
Michael Owen, fyrrum leikmaður Liverpool, segir að það gæti verið hættulegt fyrir feril Xabi Alonso að taka við af Jürgen Klopp í sumar.

Klopp mun hætta með Liverpool í sumar eftir að hafa náð frábærum árangri þar síðustu níu ár.

Alonso er efstur á blaði hjá Liverpool eftir ótrúlegt gengi hans með Bayer Leverkusen í Þýskalandi, en þýskir fjölmiðlar halda því að vísu fram að hann hallist frekar að því að taka við Bayern München.

Owen telur það vera öruggari kost fyrir spænska þjálfarann.

„Þetta er stór hausverkur fyrir Alonso. Real Madrid er annar möguleiki í framtíðinni, en það er samt útlit fyrir að Liverpool og Bayern München berjist um hann, nema hann verði áfram í Leverkusen. Það eru kostir og gallar við bæði félög. Hann hefur ekki verið lengi í þjálfun og því gæti verið öruggari kostur að velja Bayern.“

„Ég held að þeir vinni ekki deildina í ár en það er vegna þess að Alonso er hjá Leverkusen. Deildartitill er nánast öruggt þarna þar sem Bayern hafði unnið ellefu í röð fyrir þetta tímabil. Liðið mun fara aftur í það að vinna deildina, það er gefið. Þannig upp á þróun hans að gera, þá myndu hlutabréfin í honum bara hækka ef hann tekur þetta stökk.“

„Liverpool er hættulegur kostur. Að feta í fótspor Jürgen Klopp verður erfitt. Þeir spila ekki sama stíl og liðið hans Alonso, þeir spila allt öðruvísi. Kannski er hann þjálfari sem getur þjálfað á marga vegu, en við sáum það með Sir Alex Ferguson hjá Manchester United og Arsene Wenger hjá Arsenal og hvernig þau félög fóru í gegnum mikinn sársauka eftir brottför þeirra.“

„Við höfum náð að viðhalda árangri undir Klopp og næsti stjóri getur ekki gert betur en það, þannig eina leiðin er kannski niður á við? Þetta er hættulegt og áhætta að fara þangað, því væri Bayern öruggari kostur. Orðspor hans verður svakalega gott og þá getur hann valið að fara annað ef hann þarf á því að halda. Þetta er erfitt val í augnablikinu því ég sé kosta og galla við bæði félög,“
sagði Owen í lokin.
Athugasemdir
banner
banner
banner