Sancho vill ekki snúa aftur til Man Utd - Dumfries vill fara til Man Utd - Chelsea vill Osimhen
banner
   fös 19. mars 2021 17:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Virðir ákvörðun þjálfarans - „Tek þetta ekki inn á mig"
Icelandair
Jökull á unglingalandsliðsæfingu.
Jökull á unglingalandsliðsæfingu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jökull hefur staðið sig vel með Exeter á láni frá Reading.
Jökull hefur staðið sig vel með Exeter á láni frá Reading.
Mynd: Getty Images
Í gær var U21 landsliðshópurinn tilkynntur fyrir riðlakeppni Evrópumótsins.

Þrír markverðir eru í hópnum; Elías Rafn Ólafsson, Hákon Rafn Valdimarsson og Patrik Sigurður Gunnarsson.

Sumum fannst Jökull Andrésson eiga skilið að vera í hópnum enda hefur hann verið að standa sig gríðarlega vel í Englandi með Exeter, sem er í D-deild þar í landi. Hann komst hins vegar ekki í hópinn að þessu sinni.

„Já, það var að sjálfsögðu svekkjandi," segir Jökull sem er 19 ára gamall.

„Þetta er landsliðið. Auðvitað velur þjálfarinn þá sem honum langar að hafa í hópnum og ég virði það rosalega mikið. Ég þekki þjálfarann, hann var með mér í U19, og hann er frábær þjálfari. Þetta er markmið hjá mér. Ég held áfram að bæta mig og vonandi geta þeir séð að ég eigi skilið að vera í þessum hóp. Ég tek þetta ekki inn á mig eða þannig. Allir eru með sínar skoðanir og þetta er núna markmið hjá mér. Ég er alltaf með markmið og þetta er annað markmið."

„Ég er enn bara 19 ára og það er ekkert stress. Auðvitað langar manni að vera þarna og hitta alla strákana. Ég hefði misst af leikjum í Exeter. Maður horfir á jákvæðu hliðina og heldur áfram; það er það eina sem maður getur gert. Ég hefði misst af tveimur leikjum og varamarkvörðurinn er meiddur. Við hefðum þurft að vera með einhvern 16 ára í markinu. Maður horfir á jákvæðu hliðina og núna fæ ég fleiri leiki hérna."

Margir efnilegir markverðir
Ísland á fjölda efnilegra markvarða sem eru að koma upp og það er ljóst að samkeppnin verður hörð í framtíðinni í A-landsliðinu.

„Maður getur horft á þetta með neikvæðum augum en mér finnst þetta geggjað. Maður fylgist með því sem Patrik, Elías, Hákon og fleiri eru að gera. Þetta eru geggjaðir markmenn og það er gaman að sjá hvað það eru góðir, ungir og efnilegir markverðir að koma frá Íslandi. Það hefur ekki oft verið þannig í fortíðinni. Mér finnst geggjað að heimurinn sé að sjá að Íslandi er að koma fram með gæðamarkverði," segir Jökull.

„Ef það er engin samkeppni, þá er engin pressa. Það er mikilvægt í fótbolta að hafa pressu. Fótbolti er ekki alltaf dans á rósum, þetta er alvöru keppni og þetta er keppni sem maður horfir áfram á. Mér finnst þetta bara jákvætt."
Athugasemdir
banner
banner