Sancho vill ekki snúa aftur til Man Utd - Dumfries vill fara til Man Utd - Chelsea vill Osimhen
   mið 24. janúar 2024 16:53
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Ótrúleg saga Hákonar - „Hann er bara að fara í markið"
Hákon Rafn Valdimarsson.
Hákon Rafn Valdimarsson.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Finnur Tómas Pálmason, miðvörður KR.
Finnur Tómas Pálmason, miðvörður KR.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Halldór Árnason og Óskar Hrafn Þorvaldsson.
Halldór Árnason og Óskar Hrafn Þorvaldsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hákon fagnar eftir að hafa hjálpað Gróttu að komast upp í Bestu deildina.
Hákon fagnar eftir að hafa hjálpað Gróttu að komast upp í Bestu deildina.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Hákon er í landsliðinu og er á leið í ensku úrvalsdeildina.
Hákon er í landsliðinu og er á leið í ensku úrvalsdeildina.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hákon er að ganga í raðir Brentford.
Hákon er að ganga í raðir Brentford.
Mynd: EPA
„Þetta er búið að gerast ótrúlega hratt," segir Halldór Árnason, þjálfari Breiðabliks, í samtali við Fótbolta.net þegar hann er spurður út í markvörðinn Hákon Rafn Valdimarsson sem er að ganga í raðir Brentford á Englandi. Hann verður líklega annar íslenski markvörðurinn til að spila í ensku úrvalsdeildinni.

Hákon, sem er 22 ára gamall, var besti markvörður sænsku úrvalsdeildarinnar á síðasta ári og mun núna taka mjög spennandi skref til Englands. Hann er núna í Englandi að gangast undir læknisskoðun.

Hákon er dýrasti markvörður í sögu sænsku úrvalsdeildarinnar og er salan á honum sú stærsta í sögu Elfsborg.

Uppgangurinn hefur verið hraður hjá Hákoni en Halldór þjálfaði hann fyrst í yngri flokkum KR. Þá var Hákon varnarmaður með meiri einbeitingu á handbolta.

„Ég var með hann í 4. flokki og þá var hann eitthvað að gaufast í þessu. Hann var í handbolta í Gróttu og var í fótboltanum af hálfum huga. Hann var góður hafsent en á eldra ári í 4. flokki ákveður hann að hætta í fótbolta og einblína á handboltann," segir Halldór.

Með Finni Tómasi í hjarta varnarinnar
Hákon æfði þá handbolta í Gróttu en það var ekki alltaf auðvelt að ná í lið fyrir Gróttu í fótboltanum og var Hákon þá fenginn inn til að leysa af í marki í 3. flokki. Með tímanum þróaðist Hákon svo frekar óvænt í frábæran markvörð. Hann hafði ætlað sér að einbeita sér að handboltanum en er í dag á leið í ensku úrvalsdeildina sem fótboltamarkvörður.

„Hann var bara útileikmaður þegar ég þjálfaði hann fyrst og hafði held ég aldrei farið í mark. Hann og Finnur Tómas voru saman í hafsent hjá mér. Þeir voru báðir í fótbolta af hálfum hug á þeim tíma þar sem þeir voru báðir í öðrum íþróttum. Árið eftir verður Finnur frábær og fer að taka þessu alvarlega. Hákon fer á meðan í handboltann. Það er engin ein rétt leið í þessu," segir Halldór.

„Hákon dettur svo inn í þetta hjá Gróttu og menn sjá strax að það er eitthvað þarna. Hann er handboltamaður, hávaxinn og með fótboltagrunn í löppunum. Ég held að það hafi hjálpað honum mikið í þeim leikstíl sem við spiluðum með Gróttu. Menn voru nokkuð fljótir að sjá það að þarna var gæi sem gæti orðið frábær í marki. Hann sjálfur var með frábært sjálfstraust og ætlaði sér þetta bara. Hann var stórhuga og þetta er frábær saga."

Fékk traustið og fann sína leið
Hákon talaði um það sjálfur í viðtalið árið 2021 hversu mikilvægt það var fyrir hann að fá traustið sumarið 2018. Þá steig hann inn í meistaraflokkinn hjá Gróttu og greip tækifærið sem hann fékk. Ef hann hefði ekki fengið það tækifæri, þá væri hann mögulega ekki í fótbolta í dag.

„Ég átti fyrst ekki að spila tímabilið 2018 en það sem gerðist var að Jón (Ívan Rivine) sem var númer eitt þá meiddist í fyrsta leik. Þá fékk ég tækifærið, var þá nánast nýbyrjaður í marki og það gekk ekkert það vel fyrstu leikina," sagði Hákon. „Þrátt fyrir gengið í byrjun hélt ég sætinu. Ég er mjög þakklátur fyrir það að Óskar gaf mér traust og fékk ekki einhvern annan markmann og spilaði mér næstum út tímabilið. Ég veit ekki hvort ég hefði haldið áfram í fótbolta ef ég hefði bara verið á bekknum."

Halldór og Óskar Hrafn Þorvaldsson tóku við Gróttu eftir tímabilið 2017 og um mitt sumarið 2018 kom Hákon Rafn fram á sjónarsviðið.

„Þegar ég og Óskar tökum við Gróttu árið 2017 er hann nýbyrjaður að æfa fótbolta aftur og er þá í marki. Hann var orðinn aðalmarkvörður hjá okkur seinni hluta sumarsins 2018 og er þá varla búinn að æfa mark í ár. Hann dettur inn í liðið því að Jón Ívan (Rivine), sem var markvörður hjá okkur, meiðist. Óskar Hrafn má eiga það að hann var grjótharður. Við vorum í verkefni og við vorum með þennan 17 ára gæja. 'Hann er bara að fara í markið'. Það var hrikalega vel gert og 'the rest is history'."

„Hann var hrár þegar við tókum við. Þá hafði hann bara verið að spila leiki með 2. flokki og varla verið að æfa fótbolta. Ég veit ekki hversu mikla markmannsþjálfun hann var búinn að fá. Hann var eiginlega á byrjunarreit þegar kom að tæknilegum atriðum og þannig. En þessi hæð og hreyfingar, fótboltagrunnurinn og hugarfarið... það var klárlega eitthvað þarna."

„Á þessum tíma erum við með Jón Ívan í markinu og hann var á mjög flottum stað. Hann var markvörður númer eitt en hann meiðist og þess vegna fær Hákon traustið. Ég verð að gefa Óskari það að hann tók það ekki í mál að horfa á einhverja aðra markverði eða pæla eitthvað í því. Hákon fær traustið og var fyrstu leikina að fóta sig í þessu. Svo var hann bara gjörsamlega frábær og einnig árið eftir í Lengjudeildinni. Þá eiginlega vissi maður að það yrðu einhverjir stórir hlutir framundan hjá honum."

Ótrúlega stoltur af honum
Þegar Hákon fékk tækifærið í meistaraflokki þá ákvað hann að fara á fullt í fótboltanum. Hann blómstraði í leikstílnum hjá Óskari og Halldóri og fann sína leið.

„Ég held að þetta sé blanda af því að hann er með mjög mikið sjálfstraust og hann fékk líka bara mikið traust frá okkur og þjálfurunum sem komu á eftir okkur," segir Halldór um uppganginn hjá Hákoni í fótboltanum. „Hann var þvílíkt ákveðinn í að berjast fyrir sínu. Hugarfarið hjá honum var sterkt og hann ætlaði sér að ná langt þegar hann komst af stað í þessu. Það kom ekkert annað til greina."

„Maður er ótrúlega stoltur af honum og þetta er hrikalega verðskuldað. Það er gaman að geta rifjað það upp þegar ævintýri hans var að byrja. Það eru bara örfá ár síðan. Þetta er hrikalega gaman að sjá. "

Í leikstílnum sem Grótta spilaði, þá gerði Hákon mistök en hann var ekkert að dvelja við þau. Hann er sterkur karakter og það er að koma honum langt.

„Hann var með sjálfstraust, kjark og þor til að spila þann fótbolta sem við vorum að spila. Auðvitað vorum við að fá á okkur mörk þar sem markvörðurinn gerir mistök. Kannski myndi það beygja eða brjóta einhverja. Hann setti bara upp hausinn og hélt áfram. Það var aldrei neitt vesen. Hann er fullkominn markvörður að mörgu leyti með þennan bakgrunn og þessa hæð. Hann er svo mikill íþróttamaður," segir Halldór og bætir við:

„Brentford er spennandi lið en það verður enn meira spennandi núna."
Athugasemdir
banner
banner
banner