Man Utd og Arsenal vilja Guehi - Osimhen gæti farið til Chelsea eða PSG - Geertruida gæti fylgt Slot til Liverpool
banner
   lau 13. apríl 2024 18:08
Brynjar Ingi Erluson
Yfirvegaður Ísak á skotskónum í Þýskalandi - Jón Daði byrjaði í jafntefli gegn toppliðinu
Ísak Bergmann skoraði þriðja deildarmark sitt í dag
Ísak Bergmann skoraði þriðja deildarmark sitt í dag
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jón Daði er í baráttu um að komast upp í B-deildina
Jón Daði er í baráttu um að komast upp í B-deildina
Mynd: Getty Images
Júlíus var á miðsvæðinu er Fredrikstad gerði jafntefli við Sarpsborg
Júlíus var á miðsvæðinu er Fredrikstad gerði jafntefli við Sarpsborg
Mynd: Lemos Media
Ísak Bergmann Jóhannesson heldur áfram að gera flotta hluti með Fortuna Düsseldorf í þýsku B-deildinni en hann gerði annað markið í 2-0 sigri á Wehen í dag.

Skagamaðurinn er á láni frá FCK en hann hefur komið að fimmtán mörkum í 29 leikjum með Fortuna á tímabilinu.

Hann gerði annað mark liðsins á 65. mínútu í dag. Ísak kom sér inn í teiginn, var aleinn og með markvörðinn á móti sér. Hann var yfirvegaður og lagði boltann undir markvörðinn. Þriðja mark hans í deildinni.

Düsseldorf er í 3. sæti deildarinnar með 52 stig. Hólmbert Aron Friðjónsson var ónotaður varamaður er Holsten Kiel vann 4-0 sigur á Osnabrück. Holsten er á toppnum með 58 stig og er skrefi nær því að komast upp í efstu deild.

Guðmundur Þórarinsson spilaði allan leikinn fyrir OFI Crete sem gerði 2-2 jafntefli við Panserraikos í grísku úrvalsdeildinni. Crete er í 10. sæti deildarinnar með 31 stig.

Samúel Kári Friðjónsson var ónotaður varamaður hjá Atromitos sem gerði 2-2 jafntefli við Volos. Atromitos er í 7. sæti með 34 stig.

Jón Daði byrjaði gegn toppliðinu

Selfyssingurinn Jón Daði Böðvarsson var í byrjunarliði Bolton Wanderers sem gerði 1-1 jafntefli við topplið Portsmouth í ensku C-deildinni.

Jón Daði og hans menn voru betri aðilinn í leiknum en náðu ekki að nýta færi sín nægilega vel. Jón Daði fór af velli þegar tíu mínútur voru eftir.

Bolton er í 3. sæti með 82 stig þegar liðið á þrjá leiki eftir. Bolton á leik til góða á Derby, sem er í öðru sæti með 86 stig. Efstu tvö sætin fara beint upp um deild.

Guðlaugur Victor Pálsson var í vörn Eupen sem tapaði fyrir RWDM, 3-1, í fallriðli belgísku úrvalsdeildarinnar. Eupen er í botnsætinu með 25 stig. Alfreð Finnbogason var ekki í leikmannahópi Eupen í dag.

Hjörtur Hermannsson var í byrjunarliði Pisa í fyrsta sinn síðan í febrúar er liðið vann 3-1 sigur á FeralpiSalo í ítölsku B-deildinni. Pisa er í 9. sæti með 43 stig.

Oskar Sverrisson byrjaði í vörn Varberg sem vann Östersund, 2-0, í sænsku B-deildinni. Þetta var fyrsti sigur Varberg á tímabilinu.

Ari Leifsson og Davíð Ingvarsson byrjuðu báðir í markalausu jafntefli Kolding gegn Vendsyssel í meistarariðli dönsku B-deildarinnar. Kolding er í 3. sæti með 38 stig.

Birnir Snær Ingason var í byrjunarliði Halmstad sem vann 1-0 sigur á Västerås í sænsku úrvalsdeildinni. Gísli Eyjólfsson var ekki með vegna meiðsla. Halmstad hefur unnið tvo af fyrstu þremur leikjum sínum.

Júlíus Magnússon lék þá allan tímann á miðsvæðinu hjá Fredrikstad sem gerði 2-2 jafntefli við Sarpsborg í norsku úrvalsdeildinni. Fredrikstad er með 4 stig eftir þrjá leiki.
Athugasemdir
banner
banner