Isak, Tuchel, Sesko, Amorim, Rabiot, Branthwaite og fleiri góðir í slúðrinu í dag
   mið 03. ágúst 2016 10:19
Elvar Geir Magnússon
Heimild: Bítið á Bylgjunni 
Óli Gott á leið í meðferð - „Ekki hæfur til að sjá um börnin mín"
Ólafur þegar hann var hjá Brentford 2001.
Ólafur þegar hann var hjá Brentford 2001.
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Ólafur Gottskálksson, fyrrum landsliðsmarkvörður í fótbolta, opnaði sig í viðtali í Bítinu á Bylgjunni í morgun og talaði hreint út um glímu sína við fíkniefnadjöfulinn. Ólafur er fyrrum atvinnumaður en ferli hans lauk skyndilega 2005.

Meðan hann lék fótbolta var hann háður örvandi efnum og kannabis og fór í fyrstu meðferð sína 1995 þegar hann var að spila með Keflavík.

„Keflvíkingar fylgdu mér alla leið og studdu mig í þeirri baráttu. Eftir að ég lauk meðferð átti ég mjög gott tímabil og fer út," segir Ólafur en hann lék með Hibernian í Skotlandi og Brentford í ensku neðri deildunum.

Flúði lyfjapróf
Hann var í herbúðum Torquay United þegar hann var kallaður í lyfjapróf af félaginu.

„Þegar maður er í neyslu heldur maður að enginn sjái neitt en allir sáu að eitthvað óvenjulegt væri í gangi. Það var engin tilviljun að ég væri kallaður í lyfjapróf og þetta var agalegt áfall. Ég ákvað að gefa þeim ekki prufu, ég vissi hver niðurstaðan yrði og ákvað að láta mig hverfa fljótt. Ég fór bara með handtöskuna mína upp í flugvél og frá Englandi," segir Ólafur.

„Frá þessum degi liði 6-7 ár þar til ég gat horft á fréttir eða eitthvað tengt íþróttum. Ég fór í annað land og hélt vitleysunni áfram. Ég þorði ekki að koma heim og horfast í augu við þetta."

Á þessum tímapunkti átti Ólafur eina stúlku og var giftur en það hjónaband endaði með skilnaði.

„Þegar maður var alveg búinn hef ég verið það heppinn að eiga yndislega foreldra og systkini sem hafa hjálpað að reisa mig við upp aftur," segir Ólafur sem sökk ansi djúpt og hefur lagt mikið á sitt fólk.

Eftir að hafa kynnst nýrri konu náði hann um tíma að halda sér frá fíkninni. Þau eignuðust börn saman.

„Ég var algjörlega kominn úr félagsskapnum úr fótboltanum og var ekki í tengslum við neina eftir að hafa eytt 30 árum í boltanum. Þarna kynnist ég nýrri konu og fjölskylda hennar tekur mér opnum örmum. Hlutirnir fara að ganga betur," segir Ólafur en snemma á þessu ári féll hann.

„Það má segja að fallið hafi byrjað fyrir alvöru í febrúar á þessu ári. Það hafa farið 20 kíló af kjöti af mér á þessum mánuðum. Undanfarnar vikur og mánuði hefur mamma gamla sagt við mig að ég þurfi að hlúa að heilsunni. Þau vilja ekki trúa að ég sé farinn í neyslu aftur."

Handtekinn fyrir framan börnin sín
Hann lýsir því í viðtalinu hvernig ótrúlegur lygavefur fór að verða til. Það var svo nýlega sem Ólafur var handtekinn fyrir framan börnin sín eftir að hafa flúið frá lögreglunni. Þar fylltist mælirinn.

„Konan mín vinnur vaktavinnu og kemur heim á sunnudegi agalega þreytt eftir þriggja daga vinnu. Hún segir við mig að ég sjái um að koma syni okkar á leikskólann morguninn eftir," segir Ólafur en áður en hann skutlaði fimm ára syni sínum á leikskólann fór hann að útrétta í Keflavík og ná í vörur. Hann segir að lögreglan hafi þarna vitað að eitthvað væri í gangi með sig.

Þegar hann var með fimm ára son sinn í bílnum á leið í leikskólann sér lögreglan hann og ætlar að stöðva hann.

„Þeir voru að fylgjast með mér og höfðu fengið tilkynningu frá aðila í Keflavík um að ég gæti verið undir áhrifum. Ég tek þá afdrifaríku ákvörðun að stöðva ekki. Ég næ því ekki enn í dag af hverju ég gerði það ekki. Lögreglan keyrir tvisvar utan í bílinn hjá mér til að fá mig til að stöðva. Ég veit ekki hvað slær saman í höfðinu á mér, ég vildi bara komast heim. Ég læt ekki segjast, keyri í átt að húsinu mínu og þar er ég handtekinn."

Ólafur var handtekinn fyrir framan son sinn og dóttur. Hann hringdi strax í SÁÁ og bað um að komast inn.

„Ég á fjögur börn og hef aldrei upplifað það áður að setja þau í svona hættu. Ef ég set mig í spor íbúa í hverfinu þá vildi ég ekki hafa þennan mann keyrandi í hverfinu eins og hann gerði. Ég vil biðja nágranna mína fyrirgefningar því þetta hefur örugglega farið illa í þá," segir Ólafur.

Ólafur leitaði svo hjálpar frá gömlum félögum í boltanum sem voru ekki lengi að bregðast við. Í viðtalinu segir hann að Þorgrímur Þráinsson, Guðni Bergsson, Willum Þór Þórsson og fleiri góðir menn hafi myndað net og ætli að aðstoða hann í baráttunni framundan.

„Í dag er ég ekki hæfur til að sinna börnunum mínum samkvæmt barnaverndarlögum. Ég var handtekinn fyrir framan drenginn minn og tíu ára dóttur mína. Það var ömurleg tilfinning," segir Ólafur.

„Ég verð að horfa á þetta sem alvarlegan sjúkdóm en það er ekki langt síðan ég þorði að viðurkenna það. Ég ætla að vinna þessa glímu."

Hlustaðu á viðtalið í spilaranum hér að neðan.


Athugasemdir
banner
banner