Man Utd hefur áhuga á Yoro - Osimhen í forgangi hjá Chelsea - Napoli, Juve og Atletico hafa áhuga á Greenwood
   fim 02. maí 2024 21:11
Brynjar Ingi Erluson
Sambandsdeildin: Aston Villa fékk óvæntan skell á heimavelli
Aston Villa tapaði óvænt á Villa Park
Aston Villa tapaði óvænt á Villa Park
Mynd: Getty Images
M'Bala Nzola skoraði mikilvægt mark fyrir Fiorentina
M'Bala Nzola skoraði mikilvægt mark fyrir Fiorentina
Mynd: Getty Images
Vonir Aston Villa á að komast í úrslit Sambandsdeildar Evrópu eru litlar eftir að liðið tapaði óvænt fyrir gríska stórliðinu Olympiakos, 4-2, á Villa-Park.

Villa-menn hafa fagnað góðu gengi á tímabilinu en fengu svakalegan skell í kvöld.

Olympiakos, sem er sigursælasta lið Grikkland, hefur ekki verið að gera neitt svakalega góða hluti í deildinni þar í landi síðustu tvö tímabil, en það hafði ekki áhrif á liðið í kvöld.

Ayoub El Kaabi skoraði tvö mörk á þrettán mínútum. Fyrra markið gerði hann á 16. mínútu. Boltinn lak inn fyrir á El Kaabi sem kláraði af stakri snilld. Dómari leiksins flautaði rangstöðu en breytti ákvörðun sinni eftir skoðun VAR.

El Kaabi gerði annað mark sitt með því að leggja boltann undir Robin Olsen. Lucas Digne ætlaði að spila El Kaabi rangstæðan og steig fram, en það misheppnaðist hjá Frakkanum og skoraði El Kaabi örugglega.

Ollie Watkins minnkaði muninn undir lok hálfleiks. Hann skoraði með góðu skoti eftir undirbúning Moussa Diaby. en stuttu áður vildu Villa-menn fá vítaspyrnu er Leon Bailey var tekinn niður í teignum. Leit út fyrir að vera augljós vítaspyrna, en ekkert dæmt.

Diaby jafnaði metin á 52. mínútu er hann stýrði fyrirgjöf Bailey í nærhornið.

Olympiakos náði aftur tveggja marka forystu. Douglas Luiz handlék boltann í eigin teig eftir skalla Panagiotis Retsos og var það El Kaabi sem fullkomnaði þrennu sína áður en Santiago Hezze gerði fjórða markið.

Hezze skaut af 25 metra færi, boltinn breytti um stefnu eftir að hafa farið af Ezri Konsa og þaðan í netið.

Villa gat komið sér betur inn í einvígið þegar átta mínútur voru eftir. David Carmo tók Jhon Duran niður í teignum. Luiz fékk ekki
að taka vítið fyrr en 2-3 mínútum síðar vegna mótmæla frá leikmönnum Olympiakos. Öll biðin varð Luiz ofviða, sem setti boltann í stöng.

Lokatölur 4-2 í Birmingham-borg. Villa menn þurfa kraftaverk til þess að pakka Olympiakos saman í Aþenu, en skrítnari hlutir hafa vissulega gerst.

Fiorentina vann á meðan dramatískan 3-2 sigur á Club Brugge í Flórens á Ítalíu.

Heimamenn komust tvisvar yfir með mörkum frá Riccardo Sottil og Andrea Belotti en Hans Vanaken og Igor Thiago sáu til þess að jafna fyrir gestina.

Í uppbótartíma gerði M'Bala Nzola sigurmark Fiorentina, sem gæti reynst dýrmætt mark fyrir seinni leikinn.

Fiorentina 3 - 2 Club Brugge
1-0 Riccardo Sottil ('5 )
1-1 Hans Vanaken ('17 , víti)
2-1 Andrea Belotti ('37 )
2-2 Igor Thiago ('63 )
3-2 M'Bala Nzola ('90 )
Rautt spjald: Raphael Onyedika, Club Brugge ('61)

Aston Villa 2 - 4 Olympiakos
0-1 Ayoub El Kaabi ('16 )
0-2 Ayoub El Kaabi ('29 )
1-2 Ollie Watkins ('45 )
2-2 Moussa Diaby ('52 )
2-3 Ayoub El Kaabi ('56 , víti)
2-4 Santiago Hezze ('67 )
2-4 Douglas Luiz ('82 , Misnotað víti)
Athugasemdir
banner
banner
banner