Varane, Diaz, Matip, Yamal, Davies og Rashford koma við sögu
banner
   mið 06. mars 2024 22:00
Brynjar Ingi Erluson
Meistaradeildin: Man City og Real Madrid í 8-liða úrslit - Orri með geggjaða stoðsendingu
Erling Braut Haaland fagnaði marki sínu á viðeigandi hátt
Erling Braut Haaland fagnaði marki sínu á viðeigandi hátt
Mynd: Getty Images
Orri Steinn Óskarsson í leiknum í kvöld
Orri Steinn Óskarsson í leiknum í kvöld
Mynd: Getty Images
Vinicius Jr fagnar marki sínu
Vinicius Jr fagnar marki sínu
Mynd: Getty Images
Manchester City og Real Madrid tryggðu sig í kvöld inn í 8-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu.

Evrópumeistararnir unnu danska liðið FCK, 3-1, á Etihad-leikvanginum og fór því samanlagt áfram, 6-2.

Man City gat ekki beðið um betri byrjun. Manuel Akanji skoraði með skoti eftir hornspyrnu Julian Alvarez á 5. mínútu áður en Argentínumaðurinn tvöfaldaði forystuna fjórum mínútum síðar eftir mistök Kamil Grabara í markinu.

Rodri átti skalla í slá eftir hornspyrnu og endaði boltinn síðan aftur hjá Alvarez, sem ákvað að láta vaða úr ágætis færi. Grabara virtist vera með þetta skot í teskeið, en svo var ekki. Pólski markvörðurinn missti boltann inn úr höndum sér og í markið.

Gestirnir í FCK náðu að minnka muninn tuttugu mínútum síðar og það eftir stórkostlega stoðsendingu Orra Steins Óskarssonar, sem kom óvænt inn í byrjunarliðið fyrir leik kvöldsins.

Mohamed Elyounoussi sendi boltann í gegn á Orra, sem skynjaði hlaupið hjá Norðmanninum og gaf skemmtilega stoðsendingu með hælnum beint fyrir Elyounoussi sem minnkaði muninn.

Undir lok hálfleiksins gerði Erling Braut Haaland endanlega út um þetta einvígi með þriðja marki Man City og 29. marki sínu á tímabilinu.

FCK spilaði ágætis bolta í leiknum og átti nokkur góð augnablik í síðari hálfleiknum. Magnus Mattson, sem kom inn af bekknum, skapaði usla fyrir danska liðið, en náði ekki að koma boltanum í netið.

Ágætis dagsverk hjá Man CIty sem er komið áfram í 8-liða úrslit keppninnar.

Real Madrid fylgir Man CIty þangað eftir að hafa gert 1-1 jafntefli við Leipzig á Santiago Bernabeu og fer því samanlagt áfram, 2-1.

Þýska liðið var betri aðilinn í fyrri hálfleiknum þar sem Lois Openda var að koma sér í í hættuleg færi en vantaði aðeins upp á nýtinguna.

Stuðningsmenn Real Madrid voru allt annað en sáttir við gang mála og létu vel í sér heyra. Leikmenn svöruðu með því að koma boltanum í netið á 65. mínútu. Þar var að verki Vinicius Junior eftir sendingu Jude Bellingham.

Leipzig náði að svara þremur mínútum síðar með frábærum skalla frá Willi Orban. Dani Olmo komst nálægt því að koma Leipzig í framlengingu en skot hans hafnaði í þverslá og þar við sat.

Real Madrid fer áfram ásamt Manchester City.

Úrslit og markaskorarar:

Manchester City 3 - 1 FC Kaupmannahöfn (6-2)
1-0 Manuel Akanji ('5 )
2-0 Julian Alvarez ('9 )
2-1 Mohamed Elyounoussi ('29 )
3-1 Erling Haland ('45 )

Real Madrid 1 - 1 RB Leipzig (2-1)
1-0 Vinicius Junior ('65 )
1-1 Willi Orban ('68 )
Athugasemdir
banner
banner
banner