Man Utd vill fá Watkins - Helmingslíkur á að Ten Hag verði áfram - PSG hefur áhuga á Mateta
   þri 31. júlí 2018 00:08
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Heimild: laRegione 
Tekur Heimir við Basel? - „Áhugaverður kostur"
Heimir Hallgrímsson.
Heimir Hallgrímsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Basel er í þjálfaraleit.
Basel er í þjálfaraleit.
Mynd: Getty Images
Flestir Íslendingar eru eflaust að velta því fyrir sér hvað Heimir Hallgrímsson tekur sér næst fyrir hendur. Heimir hætti með íslenska karlalandsliðið fyrir tveimur vikum.

Heimir starfaði fyrir KSÍ í sjö ár, fyrst sem aðstoðarþjálfari Lars Lagerback, svo sem aðalþjálfari með Lagerback og síðan sem aðalþjálfari með Helga Kolviðsson sér til aðstoðar. Heimir náði mögnuðum árangri og kom Íslandi á Evrópumót og Heimsmeistaramót.

Heimir hélt fréttamannafund sama dag og tilkynnt var að hann væri hættur. Á fréttamannafundinum sagðist hann vera með fyrirspurnir frá félagsliðum og landsliðum.

„Það hafa komið einhverjar fyrirspurnir en ekkert sem hefur áhrif á þessa ákvörðun," sagði Heimir.

Svissneski fjölmiðillinn laRegione birtir í kvöld viðtal við Heimi Hallgrímsson en í viðtalinu er hann spurður út í knattspyrnustjórastarfið hjá Basel, sem er stærsta félagið í Sviss. Basel er án knattspyrnustjóra eftir að Raphael Wicky var rekinn. Samkvæmt heimildum þessa fjölmiðils á umboðsmaður Heimis að hafa rætt við Basel.

„Ég hef persónulega ekki rætt við stjórnarmenn Basel," tekur Heimir fram. „En þetta er klárlega áhugaverður kostur. Hvaða þjálfari sem er væri til í að þjálfa eins virt félag og Basel."

Auðvitað spurður út í tannlæknastarfið
Erlendir fjölmiðlar elska að spyrja Heimi út í tannlæknastarfið, en Heimir var tannlæknir í Vestmannaeyjum áður en hann tók til starfa hjá KSÍ. Hann snýr stundum aftur á tannlæknastofuna þegar hann er í Vestmannaeyjum.

Í viðtalinu við laRegione er Heimir spurður að því hvort hann ætli að hætta í þjálfun og einbeita sér að tannlækningum. Heimir segir svo ekki vera.

„Ég er tannlæknir og verð það til æviloka, en ég vil halda áfram að þjálfa. Ég ætla að skoða möguleika mína vel. Ég elska að vera á vellinum á hverjum degi og að taka við félagsliði yrði skemmtilegt en ég útiloka ekki að taka við öðru landsliði."

Heimir segir að val sitt snúist ekki um peninga - hann ætlar að hugsa sig vel um áður en hann tekur næsta skref.
Athugasemdir
banner
banner