Olise hefur verið að glíma við meiðsli á tímabilinu en hann er kominn með 10 mörk og 5 stoðsendingar í úrvalsdeildarleikjum.
Fyrrum umboðsmaður Michael Olise hefur verið dæmdur í sex mánaða bann fyrir brot á reglum enska fótboltasambandsins. Brotið átti sér stað árið 2019 þegar Olise lék fyrir unglingalið Reading og tók stökkið upp í meistaraflokk.
Umboðsmaðurinn Glen Tweneboah er dæmdur fyrir að hafa gert samning við Olise og Reading með ólöglegu ákvæði, sem gaf Tweneboah rétt á 10% af framtíðar kaupverði á leikmanninum.
Svona ákvæði eru ólögleg samkvæmt reglum enska fótboltasambandsins og því hefur Tweneboah verið dæmdur í bann.
Tweneboah neitar þessum ásökunum en hann fer í bann 4. október og hefur verið sektaður um 15 þúsund pund.
Crystal Palace borgaði um 9 milljónir punda til að kaupa Olise frá Reading í júlí 2021.
Tweneboah er langt frá því að vera eini seki aðilinn í þessu máli. Reading hefur verið dæmt vegna málsins ásamt núverandi og fyrrverandi starfsfólki sem tengdist þessum ólöglega samningi.
Nigel Howe, fyrrum framkvæmdastjóri Reading, hefur verið dæmdur ásamt Michael Gilkes, yfirmanni akademíunnar, og Sue Hewett, aðalritara félagsins.
Reading þarf að greiða 200 þúsund pund í sekt og þá fær Howe 5 þúsund punda sekt auk eins árs banns frá fótboltaheiminum.
Hewett og Gilkes fengu áminningar fyrir sinn þátt og hefur Reading gefið út stuðningsyfirlýsingu við starfsfólk sitt. Félagið harmar þessi mistök sem voru gerð en bendir á að þetta eru einu slíku mistökin yfir rúmlega 20 ára tímabil í starfi þeirra þriggja fyrir Reading.
Í yfirlýsingu sinni tekur Reading einnig fram að félagið er ekki sammála ákvörðun enska fótboltasambandsins þar sem það telur refsinguna vera alltof þunga og talsvert þyngri heldur en samskonar refsingar hafa verið í fortíðinni.
Athugasemdir