Rodrygo orðaður við Liverpool - Mörg félög í Sádi-Arabíu vilja Casemiro - Dortmund hefur áhuga á Greenwood
   mið 15. maí 2024 16:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Hólmfríður sneri aftur - Glímdi við ömurleg veikindi í fyrra
Hólmfríður eftir leikinn í gær með frænku sinni, Emblu Katrínu. Endurleikin mynd af þeim frænkum eins og sjá má hér fyrir neðan.
Hólmfríður eftir leikinn í gær með frænku sinni, Emblu Katrínu. Endurleikin mynd af þeim frænkum eins og sjá má hér fyrir neðan.
Mynd: Úr einkasafni
Mynd sem var tekin af þeim frænkum fyrir nokkrum árum síðan.
Mynd sem var tekin af þeim frænkum fyrir nokkrum árum síðan.
Mynd: Úr einkasafni
Ein besta fótboltakona í sögu Íslands.
Ein besta fótboltakona í sögu Íslands.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hólmfríður Magnúsdóttir sneri í gær óvænt aftur á fótboltavöllinn þegar Selfoss gerði 2-2 jafntefli gegn Fram í Lengjudeild kvenna.

Hólmfríður, sem verður fertug í september, er ein besta fótboltakona sem Ísland hefur átt en hún var í gær að spila sinn fyrsta fótboltaleik síðan í september 2022.

Hólmfríður lenti í afar erfiðum veikindum í fyrra en hún lýsti þeim í samtali við Sunnlenska.is undir lok árs á síðasta ári. Hún var hætt komin vegna veikindana en hún var með bakteríusýkingu, lungnabólgu og inflúensu.

„Ég fór í blóðprufu í sumar og ég vildi í leiðinni bara fá að vita hversu veik ég hafði verið þarna í janúar. Læknirinn sagði að ég hefði verið mjög hætt komin. Þá gat ég farið að loka því. Ég hef alltaf verið hraust og veikist mjög sjaldan. Það var alveg stór skellur að ganga í gegnum svona og ég hef lært mjög mikið af þessu, hversu þakklátur maður á að vera fyrir heilsuna," sagði Hólmfríður í viðtalinu.

„Ég hef alltaf haft mikið keppnisskap. Frá því að ég var ung þá hef ég alltaf þurft að hafa fyrir öllu. Ég fékk ekkert gefins. Ég byrjaði að vinna þegar ég var 14 ára til að eiga fyrir takkaskóm. Ég held að það sé það sem hefur drifið mig áfram í lífinu, bæði í íþróttum, fótbolta og bara öllu. Að gefast ekki upp."

Skemmtilegt að hvetja unga leikmenn áfram
Í gær sneri þessi magnaða tveggja barna móðir aftur á völlinn til að hjálpa ungu liði Selfoss í baráttunni. Hún hafði mætt á þrjár æfingar fyrir leikinn og bjóst ekki endilega við að spila. Það hefur tekið hana um ár að jafna sig á veikindunum ömurlegu.

„Mig langaði bara fara með hópnum og peppa þetta unga flotta lið sem er hérna á Selfossi," segir Hólmfríður við Fótbolta.net en hún hoppar í öll störf fyrir þetta lið. „Ég var í gæslu á fyrsta heimaleiknum hjá þeim."

Hún stefnir á að vera í kringum liðið í sumar en hún er með mikil tengsl við Selfossliðið.

„Ég á tvö ung börn og ef það hentar mér að mæta á æfingar stundum þá mun ég gera það. Mér finnst mjög skemmtilegt að hvetja unga leikmenn áfram. Guðrún Þóra (Geirsdóttir) sem er frá Húsavík hefur búið hjá mér og dóttir bróðir minns er í liðinu, Embla Katrín. Svo var hún Hekla Rán (Kristófersdóttir) að passa fyrir mig allar æfingar 2019 og 2020. Svo ég á svolítið í þessum stelpum," segir Hólmfríður létt.

Það mun svo sannarlega hjálpa þessu unga og efnilega Selfossliði að hafa Hólmfríði í kringum liðið, sama hvernig það er. Önnur fyrrum landsliðskona, Sif Atladóttir, hefur líka eitthvað verið í kringum hópinn og þá er Magdalena Anna Reimus mætt aftur á völlinn sem er skemmtilegt að sjá.

Selfoss er með tvö stig eftir tvo leiki í Lengjudeildinni.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner