Arsenal hlustar á tilboð í Jesus - Tottenham reynir við Gallagher - Liverpool orðað við varnarmann Frankfurt
   fös 19. apríl 2024 18:40
Ívan Guðjón Baldursson
Mané klúðraði víti en skoraði svo tvennu
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Al-Nassr 3 - 1 Al-Feiha
0-1 Fashion Sakala ('6)
0-1 Sadio Mane, misnotað víti ('42)
1-1 Abdulelah Al-Amri ('72)
2-1 Sadio Mane ('76)
3-1 Sadio Mane ('82)

Sadio Mané var í byrjunarliði Al-Nassr á heimavelli gegn Al-Feiha í efstu deild sádi-arabísku deildarinnar í dag, en Cristiano Ronaldo tók ekki þátt í leiknum vegna leikbanns.

Mané leiddi sóknarlínu Al-Nassr í fjarveru Ronaldo en það voru gestirnir sem tóku forystuna snemma leiks, þegar Fashion Sakala skoraði á sjöttu mínútu. Sakala er sóknarmaður frá Sambíu sem lék með Rangers í skoska boltanum á síðustu leiktíð.

Al-Nassr var talsvert sterkari aðilinn í dag en heimamenn áttu erfitt með að setja boltann í netið. Mane klúðraði vítaspyrnu á 42. mínútu og leiddu gestirnir allt þar til um miðjan síðari hálfleik, þegar Abdulelah Al-Amri skallaði hornspyrnu frá Alex Telles í netið á 72. mínútu eftir að Marcelo Brozovic, Aymeric Laporte og Mane höfðu allir fengið góð færi.

Flóðgáttirnar opnuðust eftir markið frá Al-Amri, þar sem Mane fann loksins netið og skoraði hann tvö mörk á sex mínútna kafla, það fyrra eftir laglega stoðsendingu frá Otávio.

Staðan var því orðin 3-1 og tókst gestunum ekki að minnka muninn. Sakala, sem skoraði fyrsta mark leiksins, fékk beint rautt spjald fyrir grófa tæklingu á 88. mínútu en meira marktækt átti sér ekki stað.

Al-Nassr er í öðru sæti deildarinnar eftir þennan sigur, níu stigum á eftir toppliði Al-Hilal sem á leik til góða þegar sex umferðir eru eftir af deildartímabilinu.
Athugasemdir
banner