Man Utd ætlar að reka Ten Hag - Hver tekur við? - Tuchel hefur áhuga á starfinu
   þri 24. október 2023 12:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Kyle stefnir á endurkomu í mars: Á enn eftir að ná toppnum á mínum ferli
Kyle kom til Víkings eftir að hafa leikið frábærlega með Fram tímabilið 2021.
Kyle kom til Víkings eftir að hafa leikið frábærlega með Fram tímabilið 2021.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Varð fyrir áfalli í undanúrslitum Lengjubikarsins.
Varð fyrir áfalli í undanúrslitum Lengjubikarsins.
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
Var í stóru hlutverki 2022.
Var í stóru hlutverki 2022.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ég er ekki í nokkrum vafa um að ég eigi enn eftir að ná toppnum á mínum fótboltaferli
Ég er ekki í nokkrum vafa um að ég eigi enn eftir að ná toppnum á mínum fótboltaferli
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Varnarmaður Kyle McLagan varð fyrir því óláni að slíta krossband í lok undirbúningstímabilsins og var því ekkert með Víkingi tímabilið 2023. Hann meiddist í undanúrslitaleik Lengjubikarsins.

Bandaríkjamaðurinn var á leiðinni í sitt annað tímabil með Víkingi þegar hann varð fyrir áfallinu. Hann hefur verið, og mun halda áfram, að koma sér til baka á fótboltavöllinn. Það er þó enn talsvert í að hinn 28 ára gamli Kyle geti farið að spila aftur.

Fótbolti.net heyrði í Kyle og spurði hann út í endurkomuferlið.

„Endurkoman er að ganga eins vel og hún gæti gert, ég er á undan áætlun en einbeiti mér að því að horfa í næstu daga og vikur. Til þessa hefur ekki komið neitt bakslag," segir Kyle sem vonast til að fá þau ummæli ekki í bakið. „Ég er búinn að vera í góðum höndum hjá Rúnari sjúkraþjálfara og hef ekki fundið fyrir neinu öðru en stuðningi frá félaginu í gegnum þetta ferli. Ég fer bráðum heim í frí og er með plan með sjúkraþjálfara mínum að komast í eins gott stand og ég get svo ég verði klár í næsta skref þegar ég kem aftur."

Betra að vera skynsamur
Verðuru klár í að spila þegar þú snýrð aftur?

„Ég gæti reynt að drífa mig og horft í að spila í janúar eða febrúar en það er ekki rökrétt að drífa sig til baka ef það er ískalt og völlurinn kannski háll. Þá er betra að vera skynsamur. Allir sem hafa lent í svona meiðslum klæjar að koma til baka eins fljótt og hægt er, en það er tímalína sem þarf að fylgja. Ég horfi í þetta þannig að það fer eftir veðri hversu mikinn þátt ég get tekið þátt í æfingum þar sem eru engar snertingar milli manna. Svo held ég að það sé raunhæft að horfa í að vera kominn á þann stað snemma í mars, í kringum æfingaferðina; að geta tekið 100% þátt í æfingum og verið að koma mér í leikform. Þá eru 4-5 vikur í að tímabilið hefjist. Ég held að sú tímalína passi fínt."

Var hluti af hópnum þrátt fyrir að geta ekki spilað
Hvernig var að horfa á tímabilið á hliðarlínunni?

„Það var skrítið. Mjög erfitt að gera það sem íþróttamaður sem vill ekkert heitar en að taka þátt í mótunum og leikjunum, en mjög gaman sem stuðningsmaður strákanna og aðili sem vildi klárlega að liðið næði árangri. Ég held að ég hafi stundum verið stressaðri að horfa á leikina heldur en ég hefði verið ef ég hefði verið að spila þá."

„Ég var á flestum æfingum, mætti á fundina, var í klefanum, á fundunum fyrir leiki og passaði upp á vera til staðar hjá félaginu. Þegar svo strákarnir fóru á æfingu þá fór ég í ræktina eða gerði það sem ég þurfti að gera. Þó að ég hafi ekki verið hluti af liðinu á vellinum, þá fannst mér ég samt vera hluti af hópnum."


Lausir við meiðsli og náðu að klára leikina
Frá þínu sjónarhorni, hvað fannst þér öðruvísi tímabilið 2023 miðað við 2022 þegar horft er í leik liðsins?

„Góð spurning. Ég held að allt hafi einhvern veginn smollið saman hjá öllum í sumar. Við erum með góða blöndu af einstaklingum og fótboltamönnum og umhverfið þannig að allir eru að vinna fyrir hvern annan. Augljóslega komu líka mjög góðir leikmenn inn í liðið, leikmenn sem áttu risastóran þátt í velgengninni. Mér fannst við spila góðan fótbolta bæði tímabilin, en við einfaldlega kláruðum lið og leiki á þessu ári."

„Á síðasta ári vorum við svolítið óheppnir með meiðsli í bland við bæði andlega og líkamlega þreytu í leikjaálaginu í kringum Evrópuleikina í fyrra."


Með tilboð frá Víkingi á borðinu
Hvað er næst á dagskrá hjá þér?

„Það sem er næst hjá mér er að komast á minn besta stað líkamlega og fótboltalega. Ég er ekki í nokkrum vafa um að ég eigi enn eftir að ná toppnum á mínum fótboltaferli."

Samningur Kyle við Víking er að renna út í lok mánaðar. Ertu með tilboð frá Víkingi eða öðrum félögum á borðinu?

„Ég er með tilboð frá Víkingi. Engin önnur tilboð eru á mínu borði. Ég er ekkert að flýta mér í þeim efnum, ég fer heim seint í nóvember og það væri gott að vera kominn með góða hugmynd að því hvernig framhaldið verður á þeim tímapunkti. Framundan er stöðutékk hjá mér og það verður gott að prófa hnéð og vera með smá áþreifanlegri hugmyndir um hvenær ég get snúið aftur," sagði Kyle að lokum.
   11.10.2023 19:00
Víkingur hefur rætt við Jón Guðna - Viðræður í gangi við Halldór og Kyle

Athugasemdir
banner
banner