Real Madrid sýnir Mac Allister áhuga - Greenwood eftirsóttur - Mourinho til Tyrklands? - Slot vill fá Silva
banner
   mið 08. maí 2024 09:30
Ívan Guðjón Baldursson
Marco Reus: Bjóst enginn við þessu
Mynd: EPA
Hinn 34 ára gamli Marco Reus kom inn af bekknum í báðum sigrum Borussia Dortmund gegn Paris Saint-Germain í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu.

Reus hefur verið hjá Dortmund í rúman áratug og munu leiðir skilja þegar samningurinn hans rennur út í sumar. Það er því ljóst að síðasti leikur Reus fyrir Dortmund verður úrslitaleikur Meistaradeildarinnar.

Þetta er í annað sinn sem Reus, líkt og Mats Hummels, fara í úrslitaleik Meistaradeildarinnar með Dortmund, eftir að liðið tapaði gegn FC Bayern á Wembley 2013. Sá leikur gæti verið endurtekinn í ár, þar sem Dortmund er búið að tryggja sér sæti í úrslitaleiknum á meðan Bayern spilar undanúrslitaleik við Real Madrid í kvöld.

„Þetta er klikkað! Við erum að fara á Wembley! Við erum að koma aftur. Við verðum að láta þetta gerast, þetta er okkar stund," sagði himinlifandi Reus eftir 0-1 sigur á Parc des Princes í gærkvöldi.

„Þetta er ólýsanleg tilfinning að vera kominn hingað aftur eftir meira en tíu ár. Þetta var virkilega erfiður leikur, við þjáðumst mikið og þá sérstaklega útaf hraðanum í Ousmane (Dembele) og Achraf (Hakimi). Við gerðum vel að vinna þennan leik.

„Á morgun mun enginn spyrja hvernig við unnum. Skot í stöngina munu ekki skipta neinu máli. Það eina sem skiptir máli er að Borussia Dortmund er komið í úrslitaleikinn. Það bjóst enginn við þessu, þetta er ótrúlegt."


PSG átti fjögur skot í stangirnar í gærkvöldi, eftir að hafa átt tvö skot í stangir í fyrri leiknum í Dortmund.
Athugasemdir
banner
banner