Man Utd og Arsenal vilja Guehi - Osimhen gæti farið til Chelsea eða PSG - Geertruida gæti fylgt Slot til Liverpool
   lau 30. mars 2024 21:27
Brynjar Ingi Erluson
Willum á skotskónum - Frábær byrjun Davíðs í Póllandi
Willum gerði sjöunda deildarmark sitt
Willum gerði sjöunda deildarmark sitt
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Davíð Kristján hefur komið að þremur mörkum í fyrstu þremur leikjum sínum í Póllandi
Davíð Kristján hefur komið að þremur mörkum í fyrstu þremur leikjum sínum í Póllandi
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Willum Þór Willumsson skoraði í 3-0 sigri Go Ahead Eagles gegn Excelsior í hollensku úrvalsdeildinni í kvöld en þetta var sjöunda deildarmark hans á tímabilinu.

Blikinn er lykilmaður í liði Eagles og var maðurinn sem kom þeim í forystu í leiknum.

Hann var yfirvegaður er hann gerði fyrsta mark leiksins. Eagles hafði átt nokkur skot í sömu sókninni áður en boltinn barst á fjærstöng þar sem Willum var klár í að renna boltanum í netið.

Eagles er í 7. sæti deildarinnar með 40 stig og er að gera sér vonir um að komast í Evrópukeppni á næstu leiktíð.

Davíð Kristján Ólafsson, fyrrum samherji Willums í Breiðabliki, lagði þá upp eina mark Cracovia í 3-1 tapi gegn Pogon Szczecin i pólsku úrvalsdeildinni, Davíð gekk í raðir Cracovia frá Kalmar á dögunum, en hann hefur lagt upp tvö og skorað eitt í fyrstu þremur leikjum sínum.

Bakvörðurinn hefur komið öflugur inn í lið Cracovia sem er í 13. sæti deildarinnar.

Guðmundur Þórarinsson kom inn af bekknum hjá OFI Crete í markalausu jafntefli gegn Atromitos í grísku úrvalsdeildinni. Samúel Kári Friðjónsson sat allan tímann á varamannabekk Atromitos. Bæði lið leika í fallriðli deildarinnar en Atromitos er á toppnum í riðlinum með 32 stig en Crete í 4. sæti með 27 stig.

Jón Dagur Þorsteinsson kom inn af bekknum í síðari hálfleik í 2-1 tapi Leuven gegn Mechelen í Evrópuriðli belgísku deildarinnar. Leuven er í neðsta sæti riðilsins með 15 stig.

Lærisveinar Milosar Milojevic í Al-Wasl unnu Khorfakkan, 3-1, í úrvalsdeildinni í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Al-Wasl er með tíu stiga forystu á toppnum.


Athugasemdir
banner
banner
banner