Bayern hefur áhuga á Bruno - Man Utd ætlar að bjóða í Branthwaite - Frank og McKenna orðaðir við stjórastarfið á Old Trafford
banner
   mán 29. apríl 2024 11:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Það hafa átt sér stað miklar lagfæringar"
Hermann Hreiðarsson - ÍBV
Lengjudeildin
Hermann Hreiðarsson, þjálfari ÍBV.
Hermann Hreiðarsson, þjálfari ÍBV.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
ÍBV fagnar marki.
ÍBV fagnar marki.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Rasmus Christiansen er mættur aftur.
Rasmus Christiansen er mættur aftur.
Mynd: ÍBV
Hemmi er á leið inn í sitt þriðja tímabil með Eyjaliðið.
Hemmi er á leið inn í sitt þriðja tímabil með Eyjaliðið.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hvað gerir ÍBV í sumar?
Hvað gerir ÍBV í sumar?
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Við vonumst til að sjá sem flesta stuðningsmenn styðja við bakið á ungu og rosalega duglegu liði. Þeir eru búnir að leggja rosalega mikið á sig í vetur og það væri gaman að sjá okkar fólk styðja við bakið á okkar harðduglegu strákum'
'Við vonumst til að sjá sem flesta stuðningsmenn styðja við bakið á ungu og rosalega duglegu liði. Þeir eru búnir að leggja rosalega mikið á sig í vetur og það væri gaman að sjá okkar fólk styðja við bakið á okkar harðduglegu strákum'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Tímabilið leggst vel í okkur og við erum bara mjög spenntir," segir Herman Hreiðarsson, þjálfari ÍBV, í samtali við Fótbolta.net. Eyjaamönnum er spáð fjórða sæti Lengjudeildarinnar í sumar eftir að hafa fallið úr Bestu deildinni í fyrra.

„Nei, ætli það sé ekki bara sirka það sem við bjuggumst við? Það eru mörg sterk lið í þessari deild og jöfn lið. Ég held að þetta verði jöfn deild í sumar. Það eru mörg lið búin að styrkja sig og bæta helling í hópanna. Maður áttar sig alveg á því að þetta verð hörkudeild í sumar, en ég held að hún verði rosalega skemmtileg," segir Hermann um spánna.

Hvað gerðist ekki?
Síðasta sumar var vonbrigði fyrir ÍBV þegar liðið féll úr Bestu deildinni í fyrra. Hvað gerðist þar?

„Hvað gerðist ekki? Þetta var ótrúlegt meiðslatímabil. Ég hef eiginlega aldrei séð annað eins. Okkar lykilmenn voru að meiðast og þurftu svo að keyra sig í gang aftur. Það var hluti af þessu, það var ótrúlegt," segir Hermann.

„Svo var þetta bara þannig að það voru margir leikir í okkar höndum en þeir fóru eins og þeir fóru. Við vitum alveg að við vorum ekkert á vitlausum stað. Við hefðum á mörgum stöðum getað náð í þessi stig sem þurfti, en stundum er það þannig að þetta dettur ekkert með þér. Allt sem gat farið í vaskinn, það fór í vaskinn."

Félagið á betri stað núna
Bæði karla- og kvennalið ÍBV féllu í fyrra en Hermann telur að það hafi verið mikil vakning fyrir félagið.

„En það getur líka verið gott (að falla), þú ferð að líta aðeins inn á við og ég held að félagið sé á betri stað frá botni alveg til toppar. Félagið þurfti í heild að kíkja aðeins inn á við. Það hafa átt sér stað miklar lagfæringar og þetta helst allt í hendur - viðhorfið gagnvart félaginu og hvernig stemningin er. Það er búið að lagfæra nánast alla hluti sem hægt er að laga. Við erum núna með flottasta 'gym' á landinu og við erum allavega í standi. Við erum nautsterkir," segir Hermann.

„Ég held að þetta hafi verið ákveðin vakning. Það þurfti að líta í mörg horn. Það voru ákveðnir partar af félaginu í smá skötulíki sem þurfti að taka til í. Það var þvílíkur samhugur í því að líta inn á við og skoða það hvað félagið getur gert betur. Það er búið að taka þetta föstum tökum og búið að fá mikið af öflugu fólki inn í starfið aftur. Maður finnur að það er svakalegur neisti hjá félaginu eins og staðan er í dag."

Eru að taka nýjan kúrs
Það hefur ekki vantað kraftinn í Eyjaliðið frá því Hermann tók við, en fótboltaleg hugsun er eitthvað sem hefur mátt bæta. Og liðið hefur verið að vinna í því í vetur.

„Það eru aðeins nýjar áherslur og við erum að reyna að taka stór skref með boltann. Við höfum verið í þessari hápressu og kaos fótbolta, en við erum að reyna að taka kúrsinn 'express'. Við erum að reyna að gera þetta svolítið hratt en það hefur gengið bara vel í vetur. Það er hrikalega góður stígandi og menn hafa aðlagast nokkuð hratt. Við erum helvíti ánægðir með veturinn," segir Hermann.

„Við vorum sterkir í hápressu og án bolta, að gera andstæðingnum lífið leitt. En við áttum okkur á því að ef við ætlum að gera eitthvað af viti í sumar þá þurfum við að halda svolítið í boltann. Það hefur gengið vel. Við höfum verið að þreifa okkur áfram í því. Það er stígandi í þessu."

„Veturinn er alltaf öðruvísi fyrir okkur í Eyjum og hópurinn er skiptur. Þegar þú ert að mæta í leiki þá ertu stundum búinn með þriggja tíma Herjólfsferð og undirbúningurinn er því ekki alltaf upp á tíu í þessum vetrarmótum. Við erum bara að einbeita okkur að sjálfum okkur og við finnum að það er mikill munur frá viku til viku, sérstaklega núna síðustu 2-3 vikur þegar við höfum fengið meiri tíma allir saman."

Líst svakalega vel á hópinn
Það hafa verið nokkrar breytingar á hópnum en Hermann er svakalega ánægður með það hvernig hann lítur út núna.

„Mér líst svakalega vel á hópinn. Þetta er ótrúlega heilbrigður og samstilltur hópur. Rosalega mikið af flottum karakterum og ég hef verið rosalega ánægður með þá sem hafa komið inn. Við erum hrikalega ánægðir með hópinn og samkeppnin er heilbrigð hjá okkur. Maður sér það strax að nýju mönnunum líður vel hérna á Eyjunni fögru," segir þjálfarinn.

Danski varnarmaðurinn Rasmus Christiansen var einn af þeim sem gekk í raðir ÍBV í vetur en hann kemur inn með mikla reynslu.

„Rasmus er náttúrulega bara Eyjamaður. Það er frábært að fá hann inn og við þekkjum hann vel. Hann er þvílíkur fagmaður og mikill öðlingur. Við erum með tiltölulega ungan hóp og að hafa svona leiðtoga til að líta upp til er rosalega mikilvægt fyrir okkur."

Stefnan sett á að fara beint aftur upp
ÍBV stefnir auðvitað á að fara beint aftur upp í Bestu deildina í sumar.

„Það er stefnan að fara beint aftur upp í Bestu deildina, það er engin spurning. Við förum í hvern leik til að reyna að ná í þrjú stig. Svo verðum við bara að sjá hversu langt það tekur okkur. Ég held að það sé enginn í þessari deild að fara að miða á neitt annað en að komast upp. Þetta er allt galopið með þessu nýja fyrirkomulagi. Það er engin spurning að stefna er sett á að fara upp, alveg klárlega," segir Hermann og bætti við að lokum.

„Ég hlakka hrikalega til og við erum rosalega spenntir fyrir þessu tímabili. Við höldum áfram á þessari vegferð sem við erum á með bróðurpartinn af Eyjamönnum í okkar leikmannahóp. Við vorum oft með sex eða sjö byrjunarliðsmenn úr Eyjum í liðinu okkar í fyrra og það gerir þetta skemmtilegt. Það verður áfram þannig hjá okkur. Við vonumst til að sjá sem flesta stuðningsmenn styðja við bakið á ungu og rosalega duglegu liði. Þeir eru búnir að leggja rosalega mikið á sig í vetur og það væri gaman að sjá okkar fólk styðja við bakið á okkar harðduglegu strákum."
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner