Bayern reynir aftur við Walker - Neves til Man Utd?
   þri 21. nóvember 2017 13:45
Magnús Már Einarsson
Elísabet: Þetta kom mér mjög á óvart
Elísabet með verðlaunin í gær.
Elísabet með verðlaunin í gær.
Mynd: Fotball Gala
Elísabet á æfingasvæðinu.
Elísabet á æfingasvæðinu.
Mynd: Kristianstad
„Þetta kom mér mjög á óvart. Ég var eiginlega viss um að þjálfari meistaranna myndi vinna þetta," sagði Elísabet Gunnarsdóttir við Fótbolta.net í dag en hún var í gær verðlaunuð sem þjálfari ársins í úrvalsdeild kvenna í Svíþjóð.

Verðlaunaafhendingin í Svíþjóð er risastór en um er að ræða einn stærsta sjónvarpsviðburðinn í Svíþjóð á hverju ári.

„Það eru margir í dómnefndinni. Þar eru bæði landsliðsmenn, blaðamenn og fyrrum landsliðsþjálfarar. Þetta fólk dæmir þetta út frá mismunandi þáttum og í ljósi þess er ég ótrúlega ánægð með þessi verðlaun."

Öflugur varnarleikur
Kristianstad endaði í 5. sæti á tímabilinu en það var talsvert fyrir ofan væntingar. „Ég er mjög ánægð með spilamennsku liðsins á öllu tímabilinu og við hefðum með smá heppni getað endað ofar líka. Burtséð frá hvaða sæti við enduðum í þá er þetta langbesta tímabilið síðan ég kom hingað. Varnarleikur liðsins var frábær og í tapleikjunum töpuðum við alltaf með einu marki. Margir af þeim leikjum hefðu getað endað hvernig sem er."

Stefnan tekin á toppbaráttu
Elísabet var að ljúka sínu níunda tímabili sem þjálfari Kristianstad en hún kann afar vel við sig hjá sænska félaginu.

„Ég var að skrifa undir nýjan tveggja ára samning og er mjög ánægð. Við byrjuðum að byggja upp nýja hluti fyrir þremur árum þegar við áttuðum okkur á því að við værum á leiðinni undir jörðina. Sú vinna er fyrst að skila árangri núna. Ég hefði ekki skrifað undir nýjan samning ef ég hefði ekki trú á því að við gætum gert ennþá betri hluti. Vonandi getum við barist um toppsæti á næstu árum. Við ætlum að gera betur á næsta ári en í ár og maður vill stefna á topp þrjá. Við gerum það fyrir næsta ár," sagði Elísabet að lokum.
Athugasemdir
banner
banner