Bayern reynir aftur við Walker - Neves til Man Utd?
   mán 12. september 2016 12:00
Magnús Már Einarsson
Bestur í 18. umferð: Finnst gaman að veiða
Leikmaður 18. umferðar - Andreas Albech (Valur)
Andreas Albech í leiknum í gærkvöldi.
Andreas Albech í leiknum í gærkvöldi.
Mynd: Fótbolti.net - Tomasz Kolodziejski
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Það var ótrúlegt að vera 2-0 undir gegn Stjörnunni en ná að koma til baka og vinna 3-2. Fyrri hálfleikur var mjög lélegur en sem betur fer náðum við að skora rétt fyrir hlé. Við vorum síðan mjög góðir í síðari hálfleik," sagði Andreas Albech, bakvörður Vals, við Fótbolta.net í dag.

Andreas er leikmaður 18. umferðar í Pepsi-deildinni en hann skoraði tvívegis í 3-2 sigri á Stjörnunni í gærkvöldi. Andreas skoraði sigurmarkið á 96. mínútu leiksins.

„Vanalega spila ég í hægri bakverði en þarna þurfti ég að spila í vinstri bakverði því að Bjarni var frá keppni. Þegar ég fékk boltann fyrst þá vildi ég gefa fyrir en það voru of margir Stjörnumenn inni á teignum. Ég fór því inn á völlinn og sendi á Rolf (Toft). Hann fann mig síðan aftur í hlaupinu og þegar ég fékk boltann vissi ég að ég þyrfti að setja boltann í fjærhornið." sagði Andreas um markið.

Andreas kom til Vals í júlí og síðan þá hefur liðið verið á miklu skriði.

„Þetta hefur verið ótrúlegur tími fyrir mig. Eftir þrjár vikur hér þá urðum við bikarmeistarar. Við töpuðum gegn ÍA í fyrsta leik mínum og gerðum jafntefli í þeim næsta. Við höfum hins vegar unnið nánast alla leiki síðan þá og núna erum við með fimm sigra í röð. Leikmenn hafa tekið vel á móti mér og Kristian (Gaarde) og við pössum vel inn í liðið þó að fólk hafi óttast að við myndum ekki passa inn í leikkerfið."

Valsmenn eru eftir leikinn í gær í 2. sæti deildarinnar. Telur Andreas að Valur geti náð FH?

„Núna er einbeiting okkar á að vinna leikinn gegn Breiðabliki. Það eru ennþá þrjú lið með 31 stig og FH er sjö stigum á undan. Einbeiting okkar er á að vinna næsta leik og halda 2. sætinu."

Andreas kann mjög vel við sig á Íslandi. „Ég hef verið mjög ánægður með dvölina á Íslandi. Ég kann vel Reykjavík, félagið og strákana í hópnum. Ég hef bara góða hluti að segja hingað til," sagði Andreas en hann er mikið fyrir það að veiða.

„Ég hef verið að veiða í Elliðavatni. Ég var heppinn að hitta Þorstein Magnússon (markmannsþjálfara Þróttar) þegar ég var að veiða og hann fór með mér að veiða lax. Það var frábær reynsla."

„Ég er vanur því að veiða mikið í Danmörku. Ég kom líka til Íslands árið 2012 til að veiða. Mér finnst gaman að veiða og njóta náttúrunar,"
sagði Andreas sem gæti hugsað sér að spila áfram með Val á næsta tímabili.

„Samningur minn er út tímabilið en ég er opinn fyrir því að vera áfram. Ég fer heim eftir tímabilið og ræði við umboðsmann minn en ég hef kunnað vel við mig svo ég er opinn fyrir því að vera áfram hér," sagði Andreas að lokum.

Sjá einnig:
Bestur í 17. umferð - Damir Muminovic (Breiðablik)
Bestur í 16. umferð - Hallur Flosason (ÍA)
Bestur í 15. umferð - Kristinn Freyr Sigurðsson (Valur)
Bestur í 14. umferð - Óttar Magnús Karlsson (Víkingur R.)
Bestur í 13. umferð - Atli Viðar Björnsson (FH)
Bestur í 12. umferð - Róbert Örn Óskarsson (Víkingur R.)
Bestur í 11. umferð - Óskar Örn Hauksson (KR)
Bestur í 10. umferð - Halldór Orri Björnsson (Stjarnan)
Bestur í 9. umferð - Garðar Gunnlaugsson (ÍA)
Bestur í 8. umferð - Birnir Snær Ingason (Fjölnir)
Bestur í 7. umferð - Davíð Þór Viðarsson (FH)
Bestur í 6. umferð - Gunnleifur Gunnleifsson (Breiðablik)
Bestur í 5. umferð - Viðar Ari Jónsson (Fjölnir)
Bestur í 4. umferð - Einar Hjörleifsson (Vikingur Ólafsvík)
Bestur í 3. umferð - Heiðar Ægisson (Stjarnan)
Bestur í 2. umferð - Martin Lund Pedersen (Fjölnir)
Bestur í 1. umferð - Aron Bjarnason (ÍBV)
Athugasemdir
banner
banner
banner