Man Utd og Arsenal vilja Guehi - Osimhen gæti farið til Chelsea eða PSG - Geertruida gæti fylgt Slot til Liverpool
   mið 03. apríl 2024 21:18
Brynjar Ingi Erluson
England: Foden í ham í sannfærandi sigri á Aston Villa
Phil Foden er að eiga frábært tímabil með Man City
Phil Foden er að eiga frábært tímabil með Man City
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Manchester City 4 - 1 Aston Villa
1-0 Rodri ('11 )
1-1 Jhon Jader Duran Palacio ('20 )
2-1 Phil Foden ('45 )
3-1 Phil Foden ('62 )
4-1 Phil Foden ('69 )

Manchester City fagnaði sannfærandi 4-1 sigri á Aston Villa á Etihad-leikvanginum í kvöld og er liðið nú búið að jafna Liverpool að stigum á töflunni.

Erling Braut Haaland og Kevin De Bruyne byrjuðu báðir á bekknum hjá Man City sem gaf Aston Villa aukinn möguleika á að fá eitthvað út úr leiknum.

Aston Villa varð hins vegar fyrir blóðtöku nokkrum mínútum fyrir leik er Emiliano Martínez veiktist og kom því Robin Olsen í markið í hans stað.

Man City þurfti aðeins ellefu mínútur til að komast yfir. Jeremy Doku fékk boltann hægra megin, keyrði inn í átt að teignum, renndi boltanum inn á Rodri sem skoraði með góðu skoti.

Níu mínútum síðar jöfnuðu Villa-menn. Julian Alvarez tapaði boltanum og keyrðu gestirnir í skyndisókn. Jhon Duran og Morgan Rogers tóku skemmtilegt þríhyrningsspik við teig Man City aður en Duran setti boltann framhjá Stefan Ortega í markinu.

Undir lok hálfleiksins byrjaði Foden-sýningin. Man City fékk aukaspyrnu rétt fyrir utan teiginn, en það var enginn De Bruyne til að taka hana. Foden hefur geislað af sjálfstrausti á tímabilinu og gerði sig þvi kláran, en hann setti boltann vinstra megin við vegginn og í nærhornið.

Foden gerði annað mark sitt á 62. mínútu. Rodri lék sér með boltann fyrir utan teig Villa áður en hann fann Foden í miðjum teignum. Foden setti hann í fyrsta alveg upp við stöng og inn. Laglegt mark hjá Englendingnum.

Hann var ekki hættur. Hann skoraði þrennu gegn Brentford fyrr á tímabilinu og lék það eftir í kvöld. Foden vann boltann rétt fyrir utan teig Villa áður en hann þrumaði boltanum efst upp í hægra hornið. Stórkostlegt mark og engin betri leið til að fullkomna þrennuna. Fjórtánda deildarmark hans á tímabilinu.

Þægilegt hjá Man City í kvöld sem er með 67 stig í 3. sæti deildarinnar, jafnmörg stig og Liverpool sem er í öðru sæti, en Arsenal er á toppnum með 68 stig.

Aston Villa er í 4. sæti með 59 stig. Þetta voru góð úrslit fyrir Tottenham, sem á leik til góða á Villa, en liðið er í 5. sæti aðeins tveimur stigum frá Villa.
Athugasemdir
banner
banner