Man Utd og Arsenal vilja Guehi - Osimhen gæti farið til Chelsea eða PSG - Geertruida gæti fylgt Slot til Liverpool
banner
   sun 07. apríl 2024 18:14
Brynjar Ingi Erluson
Logi með laglegt sigurmark fyrir Strömsgodset - Orri skoraði í tapi
Logi Tómasson skoraði gott mark
Logi Tómasson skoraði gott mark
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Orri Steinn skoraði í svekkjandi tapi
Orri Steinn skoraði í svekkjandi tapi
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Logi Tómasson var hetja Strömsgodset í 1-0 sigri liðsins á Rosenborg í 2. umferð norsku úrvalsdeildarinnar í dag.

Víkingurinn gerði eina markið á 62. mínútu með frábæru skoti eftir sendingu frá hægri vængnum.

Strömgodset tapaði fyrsta leiknum stórt gegn Molde og var þetta því afar mikilvægt fyrir liðið að komast á sigurbraut.

Lærisveinar Óskars Hrafns Þorvaldssonar í Haugesund töpuðu fyrsta leik sínum í deildinni en það kom gegn Lilleström. Leikurinn endaði 2-0 fyrir Lilleström sem gerði bæði mörk sín í fyrri hálfleiknum.

Anton Logi Lúðvíksson var í byrjunarliði Haugesund en fór af velli eftir klukkutíma.

Brynjar Ingi Bjarnason spilaði allan leikinn í vörn Ham/Kam sem tapaði fyrir Molde, 1-0. Viðar Ari Jónsson sat allan tímann á varamannabekk Ham/Kam.

Brynjólfur Andersen Willumsson og Hilmir Rafn Mikaelsson voru í byrjunarliði Kristiansund sem gerði 1-1 jafntefli við KFUM Oslo

Orri Steinn Óskarsson var í byrjunarliði FCK og nýtti það tækifæri vel með því að skora eina mark liðsins í 2-1 tapi gegn Nordsjælland.

Sendingin kom í gegnum vörnina og ákvað markvörður Nordsjælland að hlaupa út á móti en það sló Orra ekki út af laginu, sem keyrði fram hjá honum og skoraði.

Þetta eru hins vegar ömurleg úrslit fyrir FCK sem er sex stigum frá toppnum þegar átta leikir eru eftir.

Nóel Atli Arnórsson spilaði allan leikinn í vörn Álaborgar sem gerði 2-2 jafntefli við Vendsyssel í meistarariðli dönsku B-deildarinnar. Álaborg er á toppnum með 55 stig.

Birnir Snær Ingason byrjaði hjá Halmstad sem vann Gautaborg, 1-0, í sænsku úrvalsdeildinni. Gísli Eyjólfsson var ekki með Halmstad vegna meiðsla, en Kolbeinn Þórðarson var í banni hjá Gautaborg á meðan Adam Ingi Benediktsson var ekki í hóp og Daníel Tristan Guðjohnsen var þá ekki með Malmö í 2-0 sigri liðsins á Hammarby.

Stefan Alexander Ljubicic spilaði sinn fyrsta leik er Skövde gerði markalaust jafntefli við Landskrona í sænsku B-deildinni. Srdjan Tufegdzic er þjálfari liðsins en liðið er með 4 stig eftir tvo leiki.

Elías Rafn Ólafsson stóð á milli stanganna hjá Mafra sem tapaði fyrir Villaverdense, 2-1, í portúgölsku B-deildinni. Mafra er í 8. sæti með 38 stig og á lítinn sem engan möguleika á að komast í umspil.

Bjarki Steinn Bjarkason og Mikael Egill Ellertsson komu báðir inn af bekknum í markalausu jafntefli Venezia gegn Ascoli í ítölsku B-deildinni. Venezia er í 4. sæti með 58 stig.

Sverrir Ingi Ingason og félagar í Midtjylland höfðu betur gegn AGF, 1-0. Sverrir var allan tímann í vörn Midtjylland og þá spilaði Mikael Neville Anderson allan leikinn hjá AGF. Midtjylland er á toppnum með 51 stig en AGF með 37 stig í 5. sæti meistarariðilsins.


Athugasemdir
banner
banner
banner