Man Utd og Arsenal vilja Guehi - Osimhen gæti farið til Chelsea eða PSG - Geertruida gæti fylgt Slot til Liverpool
banner
   sun 07. apríl 2024 19:53
Brynjar Ingi Erluson
Ten Hag bæði vonsvikinn og stoltur - „Getum sjálfum okkur um kennt fyrir að gera heimskuleg mistök“
Erik ten Hag
Erik ten Hag
Mynd: EPA
Erik ten Hag, stjóri Manchester United, er afar vonsvikinn með það að liðið hafi tapað sjö stigum í þessari viku, en sagðist líka stoltur af liðinu eftir 2-2 jafnteflið gegn Liverpool á Old Trafford í dag.

Liverpool fór illa með færi sín á Old Trafford á meðan United skoraði tvö flott mörk.

Gestirnir skoruðu fyrsta markið í gegnum Luis Díaz áður en Bruno Fernandes skoraði glæsilegt mark frá miðjuboganum. Kobbie Mainoo kom United í forystu en undir lokin jafnaði Liverpool úr vítaspyrnu eftir að Aaron Wan-Bissaka gerðist brotlegur innan teigs.

„Mjög blendnar tilfinningar. Ég er mjög vonsvikinn með að hafa tapað sjö stigum á einni viku og það eftir að hafa verið í forystu, en við getum sjálfum okkur um kennt fyrir að gera heimskuleg mistök. Á hinn bóginn er ég samt stoltur því þú sérð hvernig við erum að bæta okkar leik og hæfileikana í hópnum. Ég er mjög stoltur,“ sagði Ten Hag.

„Við vorum að tapa baráttum á mikilvægum svæðum, þá sérstaklega hjá ungu leikmönnunum. Við vorum ekki nógu öruggir með að vinna þessi einvígi. Það kom meiri hvatning í síðari hálfleiknum til að gera betur og þeir stigu svo sannarlega upp.“

United er í 6. sæti deildarinnar, ellefu stigum frá Tottenham og Aston Villa. Draumurinn um Meistaradeildarsæti er fjarlægur eftir jafnteflið í dag.

„Ég veit það ekki. Við munum halda áfram að berjast og verðum að gera það sama og læra af þessum augnablikum. Brentford var versta frammistaðan og þar áttum við alls ekki skilið að vinna,“ sagði Ten Hag.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner