Varane, Diaz, Matip, Yamal, Davies og Rashford koma við sögu
   mið 13. mars 2024 15:51
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Köln bað um æfingaleik við Breiðablik
Úr leik hjá Blikum á undirbúningstímabilinu.
Úr leik hjá Blikum á undirbúningstímabilinu.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Breiðablik mun fara í æfingaferð til Spánar seinna í þessum mánuði og spila þar einn æfingaleik.

Halldór Árnason, þjálfari Blika, sagði frá því í útvarpsþættinum Fótbolta.net síðasta laugardag að liðið mun spila við Köln frá Þýskalandi í æfingaferðinni sinni.

Það er afar áhugavert þar sem Köln er í þýsku úrvalsdeildinni og situr þar í 16. sæti í augnablikinu. Köln ætlar með liðið sitt til Spánar á meðan það er landsleikjahlé síðar í þessum mánuði og stilla saman strengi fyrir lokahluta þýsku úrvalsdeildarinnar.

„Við höfum auðvitað verið að spila leiki í þessum ferðum síðustu ár. Við spilum einn leik núna, spilum gegn Köln úr þýsku úrvalsdeildinni. Við endum ferðina á því," sagði Halldór í útvarpsþættinum.

„Það er mjög fínt að fá þennan leik. Við erum að fara seinna í æfingaferð og í landsleikjahléi, þannig að það var ekki auðvelt að fá leik. Köln ætlar að hoppa þarna yfir í landsleikjahléinu og æfa á sama stað og við á Spáni. Það var upplagt að spila við þá."

Það var Köln sem hafði samband við Breiðablik með það fyrir augum að spila þennan æfingaleik.

„Ég lagði mikla áherslu á að reyna að fá góðan leik. Það leit út fyrir að það gæti orðið erfitt þar sem það eru ekki mörg lið að æfa þarna á þessum tíma. Þeir einhvern veginn fundu okkur og höfðu samband. Ég held að það hjálpi til að þeir sjái þarna íslenskt lið sem var í riðlakeppni í Sambandsdeildinni. Það hjálpar örugglega. Við tókum vel í þá ósk og erum meira en til í að spila við þá," sagði Halldór en hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni hér fyrir neðan.
Útvarpsþátturinn - Dóri Árna og enduskoðuð Lengjuspá
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner