Sancho, Sesko, Mac Allister, Ten Hag, Raya og fleiri góðir koma við sögu
   fim 25. apríl 2024 12:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Kemur ekki á óvart en við vitum annað og meira en hinir"
Gunnar Heiðar Þorvaldsson - Njarðvík
Lengjudeildin
Gunnar Heiðar Þorvaldsson, þjálfari Njarðvíkur.
Gunnar Heiðar Þorvaldsson, þjálfari Njarðvíkur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Njarðvík er spáð tíunda sæti.
Njarðvík er spáð tíunda sæti.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Gunnar Heiðar hér til hægri.
Gunnar Heiðar hér til hægri.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
'Við hlökkum mikið til sumarsins og finnum að það er mikil spenna í Njarðvík'
'Við hlökkum mikið til sumarsins og finnum að það er mikil spenna í Njarðvík'
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
„Í rauninni kemur það ekki á óvart að okkur sé spáð tíunda sæti. Miðað við hvernig tímabilið endaði í fyrra þá halda örugglega langflestir að við séum rétt nægilega góðir til að vera í þessari deild. Þetta kemur okkur ekki neitt á óvart. Þetta er bara spá en við vitum annað og vitum meira en hinir," segir Gunnar Heiðar Þorvaldsson, þjálfari Njarðvíkur, við Fótbolta.net.

Njarðvíkingum er spáð tíunda sæti Lengjudeildarinnar í sumar en það eru þjálfarar og fyrirliðar sem spá í deildina.

„Það hefur gengið mjög vel hjá okkur í vetur. Við höfum æft vel og tekið fullt af leikjum. Það er búið að vera svolítið um breytingar á leikmannahópi og menn hafa verið að koma inn á mismunandi tímum. Við erum enn að vinna með það. Við fengum tvo leikmenn rétt fyrir mót og fengum Breka Þór frá ÍA í gær. Það eru breytingar á þessu en heilt yfir hefur gengið mjög vel," segir Gunnar Heiðar en hann telur liðið vera í mjög góðu formi.

„Við erum í mjög góðu formi og sjáum það að við höfum greinilega gert eitthvað rétt. Það hafa ekki verið nein vöðvameiðsli í vetur. Ég vil þakka þjálfarateyminu mínu og sérstaklega Sigga styrktarþjálfara. Strákarnir eiga mikið hrós skilið fyrir að halda prógramminu. Við erum komnir á þann stað sem við viljum vera á núna rétt fyrir mót."

Björguðu sér með minnsta mögulega mun
Gunnar Heiðar tók við Njarðvík í júlí eftir að Arnar Hallsson var rekinn úr starfi þjálfara liðsins. Undir stjórn Gunnars þá náði Njarðvík að bjarga sæti sínu með minnsta mögulega mun í lokaumferðinni, en liðið var einu marki frá því að falla.

„Þegar ég kom og tók við þá var liðið ekki vel statt andlega fannst mér. Menn voru mjög þreyttir, það var pirringur og það var margt búið að gerast - sumt sem ég vissi ekki um fyrr en bara í vetur. Við náðum að kreista út nokkra sigrum í röð til að halda okkur í þessari deild. En maður sá það líka í síðustu tveimur eða þremur leikjunum að liðið var algjörlega andlega og líkamlega gjaldþrota," segir Gunnar Heiðar.

„Það var greinilega mikið búið að ganga á en við náðum að kreista fram síðustu dropana í leikmannahópnum til að klára þetta verkefni. Eins og margir vita kláruðum við þetta með minnsta mögulega mun. En við erum ánægðir með það í dag því við erum búnir að fara vel yfir þetta, erum búnir að æfa vel í vetur og erum klárlega tilbúnir í þá baráttu sem framundan er."

Finnst við vera á réttri leið
Það hefur verið nokkuð um breytingar á leikmannahópnum í vetur, en þjálfarinn er ánægður með stöðuna á hópnum og segir hann vera sterkari en í fyrra.

„Það er búið að vera nokkuð mikið um breytingar á hópnum. Við náðum að halda þeim leikmönnum frá því í fyrra sem við vildum halda og byggja ofan á það. Við lítum á þetta sem verkefni fyrir okkur að gera þetta betur, stækka félagið og gera þetta fagmannlegra hjá okkur," segir Gunnar. „Mér finnst við vera á réttri leið og vonandi heldur það áfram. Njarðvík er stórt félag með mikið hjarta. Fólkið í kringum okkur, styrktaraðilarnir og fleira styðja vel við bakið á okkur. Við erum mjög sáttir og ég tel það að við séum með sterkari hóp í dag en í fyrra."

„Markmiðið hjá okkur er að gera betur en í fyrra. Það er númer eitt, tvö og þrjú. Við erum í vegferð með félagið og það mun taka sinn tíma. Mér finnst við hafa tekið rétt og góð skref í vetur. Ég tel að við verðum ofar en í fyrra, ég ætla að segja það."

Algjör veisla og sérstaklega á Rafholtsvellinum
Það má búast við jafnri og spennandi Lengjudeild í sumar.

„Deildin var gríðarlega skemmtileg í fyrra, það var mikið um óvænt úrslit og baráttan var mikil á toppi og botni. Úrslitakeppnin var líka spennandi. Þau sem fylgdust með Lengjudeildinni í fyrra fengu helvíti mikið fyrir áhugann sinn," segir þjálfari Njarðvíkinga.

„Ég held að þetta verði enn jafnara í ár. Það eru mun fleiri lið sem eru að fara að berjast um þessi topp sex sæti. Við fengum tvö sögufræg lið niður, ÍBV og Keflavík, sem eru með mikla hefð og reynslu. Ég er ótrúlega spenntur fyrir þessu tímabili og ég held að aðrir þjálfarar í þessari deild séu sammála um það að þetta verði mjög jöfn deild. Þetta fer kannski bara eftir dagsformi hjá leikmönnum. Við erum mjög spenntir fyrir þessu tímabili."

Einhver skilaboð að lokum?

„Við hlökkum mikið til sumarsins og finnum að það er mikil spenna í Njarðvík. Ég tala nú ekki um að við spilum við ÍBV á laugardeginum á Þjóðhátíð. Og eigum Keflavík í alvöru grannaslögum í sumar. Okkur hlakkar hrikalega til að fá alla stuðningsmenn Njarðvíkur til að koma og styðja okkur. Þetta verður hörkusumar og sérstaklega ef Siggi Stormur verður sannspár - að það verði bongóblíða í allt sumar - þá erum við að fara að fá algjöra veislu í sumar og sérstaklega á Rafholtsvellinum. Ég hlakka til að sjá alla koma og styðja ykkur í sumar."
Athugasemdir
banner
banner
banner