Bayern reynir aftur við Walker - Neves til Man Utd?
   lau 19. desember 2020 12:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Þjálfarinn hafði betur í stríði gegn fyrirliðanum
Papu Gomez.
Papu Gomez.
Mynd: Getty Images
Gian Piero Gasperini.
Gian Piero Gasperini.
Mynd: Getty Images
„Það eru frekar leiðinlegar fréttir úr herbúðum Atalanta undanfarnar vikur," segir Björn Már Ólafsson í nýjasta þætti sínum af hlaðvarpinu um ítalska boltann.

Ítalska félagið Atalanta skapaði mjög skemmtilega sögu í Meistaradeildinni á síðustu leiktíð með sínum skemmtilega fótbolta. Liðið var hársbreidd frá því að slá Paris Saint-Germain úr leik í 8-liða úrslitunum.

Atalanta er komið í 16-liða úrslit Meistaradeildarinnar núna, en er í áttunda sæti ítölsku úrvalsdeildarinnar. Það hefur verið neikvæðara andrúmsloft í kringum félagið á þessu tímabili. Þjálfarinn og fyrirliðinn hafa verið að rífast.

„Það er þetta stóra rifrildi á milli Papu Gomez, fyrirliða liðsins, og Gian Piero Gasperini, þjálfara liðsins. Þetta á rætur sína að rekja til þess að Gomez hefur verið valinn í argentíska landsliðið undanfarið og hefur ferðast langar leiðir til Suður-Ameríku til að spila landsleikina, en hefur svo ekki spilað mínútu - bara setið á bekknum," sagði Björn Már.

„Gasperini er frekar ósáttur við þetta og vill frekar að hann hvíli og sé heima á æfingasvæðinu. Hann hefur auðvitað ekkert verið sérstaklega mikið í argentíska landsliðinu fyrr en núna. Maður sem er kominn yfir þrítugt og er ekkert að spila á auðvitað bara að vera heima á æfingasvæðinu og hvíla samkvæmt Gasperini."

„Í leiknum gegn Midtjylland í Meistaradeildinni, þar sauð upp úr í hálfleik þegar Gasperini hafði sagt Gomez að spila framar á vellinum til þess að spara krafta... þetta var Gomez ósáttur við og fór gegn þessum skilaboðum. Í hálfleik kom til hávaðarifrildi þar sem Josip Ilicic þurfti að stíga á milli. Það má lesa það úr ítölskum fjölmiðlum að það hafi jafnvel verið einhverjar líkamlega stimpingar þarna á milli. Staðan er bara þannig að þeir geti ekki báðir verið áfram hjá félaginu."

„Það hefur komið fram að Gasperini, eftir leikinn við Midtjylland, þá hafi hann talað við stjórn félagsins og forsetann, Percassi, og ákveðið að segja upp sem þjálfari liðsins. Hann sagðist vera búinn að missa klefann, það væru leikmenn sem hann þyrfti að losa sig við og hann gæti ekki verið þjálfari á meðan þessir leikmenn væru enn í liðinu. Percassi, forseti félagsins, tók þá ákvörðun að standa með þjálfaranum."

„Það bendir til þess að Gomez sé á leið út. Hann hefur verið orðaður við PSG, Roma og Mílanó-félögin helst. Percassi veðjaði á Gasperini á sínum tíma og hefur grætt mikið á því. Gasperini er gullkálfurinn hans Percassi, en leiðinlegt fyrir Gomez því hann hefur verið þarna enn lengur en Gasperini. Hann var líka þarna þegar gekk illa... Gomez er einn skemmtilegasti leikmaðurinn í deildinni á að horfa."

Hinn 32 ára gamli Gomez hefur spilað með Atalanta frá árinu 2014. Gasperini tók við Atalanta 2016.

Hlusta má á hlaðvarpið um ítalska boltann í heild sinni hér að neðan.
Ítalski boltinn - Paolo Rossi kvaddur og leikmenn þvingaðir í æfingabúðir
Athugasemdir
banner
banner