Napoli hefur áhuga á Grealish - Tottenham horfir til Mainoo - Real Madrid til í að opna veskið fyrir Rodri
   mið 23. júlí 2025 21:37
Brynjar Ingi Erluson
EM kvenna: Bonmatí hetjan þegar Spánverjar fóru í úrslitaleikinn
EM KVK 2025
Spánverjar bókuðu sæti sitt í úrslit EM
Spánverjar bókuðu sæti sitt í úrslit EM
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Þýskaland 0 - 1 Spánn
0-1 Aitana Bonmati ('113 )

Spænska landsliðið er komið í úrslitaleik Evrópumótsins í Sviss eftir að hafa unnið Þýskaland, 1-0, eftir framlengdan leik á Letzigrund-leikvanginum í Zürich.

Þær spænsku héldu mjög vel í boltann og voru betri aðilinn stærstan hluta leiksins.

Ann-Katrin Berger, markvörður Þjóðverja, hefur átt frábært mót og hélt áfram á sömu braut í kvöld, og verður einnig að taka ofan fyrir vörn Þjóðverja sem hélt vel.

Þrátt fyrir þónokkra yfirburði tókst Spánverjum ekki að skora í fyrri hálfleiknum og var staðan markalaus.

Klara Bühl og Giovanna Hoffmann voru hættulegastar fram á við hjá þeim þýsku.

Hoffmann átti skalla framhjá strax í upphafi síðari hálfleik eftir laglegan undirbúning Bühl og nokkrum mínútum síðar varði Berger hinum megin frá Ona Batlle.

Cata Coll, markvörður Spánverja, þurfti að taka á stóra sínum á lokamínútum venjulegs leiktíma og í uppbótartíma. Hún varði tvívegis frá Bühl og kom síðan í veg fyrir að Carlotta Wamser næði frákastinu í seinna færinu.

Markverðirnir í gír en engin mörk og þurfti því að framlengja. Annar leikurinn í röð sem Þjóðverjar fara í framlengingu og var því langur hálftími framundan hjá þeim.

Þær héldu hreinu í fyrri hlutanum en í seinni kom sigurmark Spánverja. Athenea kom boltanum inn á teiginn á Aitana Bonmatí, sem lét boltann renna í gegnum klofið á sér áður en hún hamraði boltanum upp við nærstöng og í netið. Glæsileg afgreiðsla hjá bestu fótboltakonu heims.

Þetta reyndist sigurmarkið og eru það Spánverjar sem fara í úrslitaleikinn og mæta þar ríkjandi Evrópumeisturum Englands, en þessi lið mættust einmitt í úrslitaleik HM árið 2023 og því von á miklu fjöri á sunnudag.


Athugasemdir
banner
banner