Liverpool í lykilstöðu til að fá Rodrygo frá Real Madrid - Brentford hafnaði fyrsta tilboði Newcastle í Wissa
   mið 23. júlí 2025 11:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Íslenska Silkeborg mætir dönsku útgáfunni - „Gætum ekki verið betur undirbúnir undir lið erlendis"
Hallgrímur Jónasson, þjálfari KA.
Hallgrímur Jónasson, þjálfari KA.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kent Nielsen er þjálfari Silkeborg.
Kent Nielsen er þjálfari Silkeborg.
Mynd: EPA
Stefán Teitur varð bikarmeistari með Silkeborg fyrir rúmu ári síðan og valinn maður leiksins í bikarúrslitaleiknum.
Stefán Teitur varð bikarmeistari með Silkeborg fyrir rúmu ári síðan og valinn maður leiksins í bikarúrslitaleiknum.
Mynd: Arnór Sigurðsson
Tíu þúsund manna hringbyggður leikvangur.
Tíu þúsund manna hringbyggður leikvangur.
Mynd: EPA
„Við flugum beint frá Akureyri til Billund, svo hálftíma rúntur til Silkeborgar. Það var æfing á leikvanginum í gær og höfum verið á mjög fínu hóteli, gert lítið annað en að hvíla okkur, funda og borða. Sem er gott fyrir leikmenn en ekki þjálfara."

Þetta segir Hallgrímur Jónasson, þjálfari KA, á léttu nótunum við Fótbolta.net í dag.

Klukkan 17:00 að íslenskum tíma mæta bikarmeistararnir í KA liði Silkeborgar í 2. umferð forkeppninnar í Sambandsdeildinni.

Þetta er fyrri leikur liðanna í einvíginu, seinni leikurinn fer fram á Greifavellinum í næstu viku.

Svipuð leikmynd og gegn KR í deildinni
„Mér líst mjög vel á leikinn, það er alltaf gaman að fara í Evrópuleiki. Við erum að fara mæta mjög góðu liði sem hefur gert vel undanfarin ár. Það verða geggjaðar aðstæður, aðeins heitara en við erum vanir heima, 23 gráður og mikill raki í loftinu."

„Þetta er lið sem spilar frábæran fótbolta, það kæmi mér ekki á óvart ef leikmyndin verður svipuð eins og þegar við mættum KR. Þeir verða mun meira með boltann, reyna alltaf að spila í gegnum miðjuna og eru góðir í því. Þetta verður leikur sem við þurfum að verjast vel í, þurfum að þora að gera okkar, þora að halda aðeins í boltann. Þetta er ekki besta pressulið í Danmörku."

„Ef við gerum okkar hluti vel, höfum trú á sjálfum okkur, þá förum við heim með úrslit sem halda einvíginu opnu. Það er það sem við stefnum á."


Var mjög náinn þjálfaranum
Þjálfari Silkeborgar er Kent Nielsen sem þjálfaði Hadda hjá danska liðinu OB fyrir um tíu árum síðan.

„Það leggst mjög vel í mig. Þegar ég sá að þetta væri eitt af 48 liðum sem við gætum dregist á móti, þá sagði ég að það væri skrifað í skýin að við myndum mæta Silkeborg."

„Ég hef kallað okkur Silkeborg Íslands, þeir eru búnir að lenda í sjöunda sæti, farið tvisvar í bikarúrslit síðustu tvö ár og bæði unnið og tapið, alveg eins og við. Þetta er ekki eitt af stóru liðunum í Danmörku, en gert ótrúlega vel."

„Hann þjálfaði mig í OB þegar ég var fyrirliði liðsins, ég var mjög náinn honum, þekki hann mjög vel og veit nákvæmlega hvernig hann vill spila."

„Ég held að við gætum ekki verið betur undirbúnir undir lið erlendis heldur en þá, ég er með mjög góða kontakta hérna í Danmörku til að fá greiningu á þeim og við sjálfir erum búnir að greina þá. Ofan á það þekki ég þjálfarann og hvernig hann vill spila. Við ættum að vera mjög vel undirbúnir."


Silkeborg endaði í 7. sæti á síðasta tímabili og vann í kjölfarið Evrópuumspilið og tekur þess vegna þátt í Evrópukeppni á síðasta tímabili. Tímabilið þar á undan endaði liðið í 6. sæti og varð bikarmeistari. Haddi var í sex ár á sínum atvinnumannaferli í Danmörku. Þar spilaði hann með SönderjyskE, OB og Lyngby.

Tíu þúsund manna leikvangur
Hvernig er leikvangurinn, JYSK Park, verður uppselt?

„Þetta er 10 þúsund manna völl, stúka allan hringinn. Eitthvað sem maður myndi nú ætla að landsliðin okkar gætu haft. Ég heyrði að kostnaðurinn við að byggja þennan leikvang hafi verið jafnmikill og það sem við erum að gera upp í KA, nýi völlurinn þar. Munurinn er að þetta er hringleikvangur, fyrir 10 þúsund manns, byggður fyrir tíu árum síðan."

„Það verður ekki uppselt, einhverra hluta vegna er KA ekki vinsælasta liðið í Danmörku,"
segir Haddi á léttu nótunum.

„Það eru margir í sumarfríi og ég býst við 3-4 þúsund manns á leiknum," segir þjálfarinn.
Athugasemdir
banner
banner