Bandaríski-íslenski sóknarmaðurinn Cole Campbell gæti verið að skipta um félag í Þýskalandi en hann hefur náð samkomulagi við Stuttgart um fimm ára samning. Þetta segir Florian Plettenberg hjá Sky.
Cole er 19 ára gamall og spilaði með bæði FH og Breiðablik hér heima, þar sem hann varð meðal annars annar yngsti leikmaður í sögu FH er hann kom inn á í leik gegn Leikni.
Á meðan hann var á mála hjá FH skrifaði hann undir samning við Borussia Dortmund í Þýskalandi. Hann gerði samninginn í maí og tveimur dögum síðar fékk hann félagaskipti í Breiðablik þar sem hann spilaði í rúman mánuð áður en hann hélt til Þýskalands.
Cole hefur tekið miklum framförum hjá Dortmund og verið einn af aðalmönnum U17 og U19 ára liðsins síðustu ár. Á síðasta tímabili spilaði hann sex leiki með aðalliði Dortmund og greinilega vakið athygli fyrir frammistöðu sína.
Mörg félög eru að reyna sækja hann frá Dortmund í sumarglugganum og þá helst Stuttgart, sem hefur þegar samið við Cole um kaup og kjör. Hann mun skrifa undir fimm ára samning, en Stuttgart á enn eftir að ná samkomulagi við Dortmund.
Stuttgart hefur boðið Dortmund 7 milljónir evra fyrir Cole, en samkvæmt Plettenberg hefur Dortmund meiri áhuga á að lána hann út eða selja hann með endurkaupsrétt.
Cole á íslenska móður og bandarískan föður. Hann spilaði 7 leiki með U17 ára landsliði Íslands áður en hann tók ákvörðun um að spila fyrir Bandaríkin. Þar hefur hann spilað með bæði U19 og U20 ára landsliðunum en það ætti að styttast í að hann verði tekinn inn í A-landsliðið.
Athugasemdir