Liverpool í lykilstöðu til að fá Rodrygo frá Real Madrid - Brentford hafnaði fyrsta tilboði Newcastle í Wissa
   mið 23. júlí 2025 14:52
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Boltastelpan sem varð að þjóðhetju í Englandi
Kvenaboltinn
Michelle Agyemang og Chloe Kelly eftir leikinn í gær.
Michelle Agyemang og Chloe Kelly eftir leikinn í gær.
Mynd: EPA
Fagnar marki sínu gegn Ítalíu.
Fagnar marki sínu gegn Ítalíu.
Mynd: EPA
Það hefur verið ótrúlegt að fylgjast með enska landsliðinu á Evrópumótinu í Sviss. Þær eru eins og Harry Houdini; ná einhvern veginn að töfra sig áfram í þessu móti.

Í átta-liða úrslitunum voru þær 2-0 undir gegn Svíþjóð þegar 80 mínútur voru búnar, en skoruðu tvisvar með stuttu millibili og komu leiknum í framlenginu og vítaspyrnukeppni. England hafði svo betur í ótrúlegri vítakeppni. Svo gegn Ítalíu í gær var staðan enn verri þar sem staðan var 1-0 fyrir Ítali eftir 95 mínútur, en þá jafnaði England og svo kom sigurmarkið á síðustu stundu í framlengingu.

Segja má að hetjan í báðum þessum leikjum hafi verið hin 19 ára gamla Michelle Agyemang.

Hún kom inn á gegn Svíþjóð og skoraði jöfnunarmarkið þar. Svo kom hún aftur inn á í gærkvöldi og skoraði jöfnunarmarkið rétt áður en leikurinn kláraðist.

Agyemang er yngsti leikmaðurinn í hópnum hjá Sarinu Wiegman, þjálfara Englands, en hún hafði bara spilað einn landsleik áður en hún fór á EM. Hún fékk tækifæri fyrir mótið eftir að Alessia Russo meiddist og nýtt hún sér það með því að skora aðeins 41 sekúndu eftir að hafa komið inn á af bekknum.

Mirror vekur athygli á því að það eru aðeins fjögur ár síðan Agyemang var boltasækjari í 4-0 sigri Englands gegn Norður-Írlandi. Margir af leikmönnum liðsins í dag voru hópnum þá. Núna er Agyemang orðin þjóðhetja og hún á nóg eftir.

„Hún kann að skjóta boltanum, hún er hættuleg, hún er með mörg vopn og hún verður þekkt nafn fyrr en varir," sagði Dario Vidosic, þjálfari hennar hjá Brighton, fyrir ekki svo löngu. Og í dag er það raunin.

Agyemang, sem er samningsbundin Arsenal, mun líklega byrja á bekknum í úrslitaleiknum en hún er afar sterkt vopn inn af bekknum. Chloe Kelly er það líka en þær tvær hafa haft frábær áhrif á enska liðið inn af bekknum.

Í kvöld kemur í ljós hvaða lið mætir Englandi í úrslitaleiknum þegar Spánn og Þýskaland mætast.
Athugasemdir
banner
banner