
Þorvaldur Örlygsson, formaður KSÍ, segist hafa rætt við Þorstein Halldórsson, þjálfara kvennalandsliðsins, eftir Evrópumótið í Sviss. Hann gerir ráð fyrir því að Steini verði áfram með liðið.
Vonbrigðin voru mikil í Sviss þar sem íslenska liðið tapaði öllum sínum leikjum. Yfirlýst markmið fyrir mót var að fara upp úr riðlinum en það náðist ekki.
Vonbrigðin voru mikil í Sviss þar sem íslenska liðið tapaði öllum sínum leikjum. Yfirlýst markmið fyrir mót var að fara upp úr riðlinum en það náðist ekki.
Eftir að það var ljóst að markmiðin myndu ekki nást þá fór fólk að velta því fyrir sér hvort að Steini yrði áfram við stjórnvölinn en hann hefur stýrt landsliðinu frá því í ársbyrjun 2021. Hann hefur farið á tvö Evrópumót sem þjálfari Íslands en á báðum mótunum hefur íslenska liðið setið eftir í riðlakeppninni.
„Landsliðsþjálfarinn okkar er með samning áfram en það var svo sem ekkert óeðlilegt að fólk fór að velta fyrir sér hinu og þessu í ljósi þess að úrslitin voru ekki það sem við vorum að vonast eftir," sagði Þorvaldur við Fótbolta.net í dag.
„Ég er búinn að hitta Þorstein og við höfum rætt hlutina í rólegheitum. Við eigum eftir að hittast aftur. Menn vilja gera EM upp betur og gera það vel. Við erum búnir að hittast og eiga gott spjall til að sjá hvernig framhaldið er."
Er með samning áfram
Rétt fyrir EM í Englandi sumarið 2022 fékk Þorsteinn samning sem gildir út undankeppni HM 2026.
„Eins og staðan er í dag þá er Þorsteinn með samning til 2026. Það er stutt í næsta verkefni; að við eigum að spila við Norður-Íra í Þjóðadeildinni. Við erum að greina það núna hvað við getum gert til að halda áfram að bæta umgjörð og bæta allt í kringum liðið," segir Þorvaldur.
Verður hann þjálfari í þessum leikjum gegn Norður-Írlandi?
„Þorsteinn er með samning áfram og við stefnum á það, alveg klárlega."
Þorvaldur segir að samtalið hafi verið gott við landsliðsþjálfarann.
„Alveg virkilega, góð og heiðarleg samtöl með það. Allir sem fylgdust með, og þú meðal annars, gerðum okkur vonir um að gera betur í Sviss. Við vorum á meðal þeirra 16 bestu en náðum ekki þeim markmiðum sem við settum okkur. Við eigum þá að skoða allt og greina svo við getum vonandi gert betur í framhaldinu."
Ertu vongóður um að gengið geti batnað með Steina við stjórnvölinn?
„Auðvitað er ég alltaf vongóður. Við þurfum að greina hvað við getum gert betur og hvort við getum stutt betur við. Við þurfum líka að horfa til næstu kynslóða, hvort við getum gert okkar leikmenn enn betri í framtíðinni," sagði Þorvaldur að lokum.
Athugasemdir