Varane, Diaz, Matip, Yamal, Davies og Rashford koma við sögu
banner
   fim 14. maí 2009 07:13
Magnús Már Einarsson
3.deild: Hvað er að frétta Árborg?
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Guðmundur Karl
Mynd: Guðmundur Karl
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Guðmundur Karl
Mynd: Vignir Egill
Þá er komið að liðnum "Hvað er að frétta?" hér á Fótbolti.net en þar kíkjum við á stemninguna hjá liðum í fyrstu, annarri og þriðju deild

Í dag er kíkjum við á stemninguna hjá Árborg sem sigraði C deild Lengjubikarsins á dögunum. Adólf Bragason þjálfari liðsins svaraði nokkrum spurningum.

Hvernig er stemningin hjá Árborg þessa dagana?
Stemningin er alveg ljómandi góð hjá okkur Árborgarmönnum eins og alltaf. Það styttist óðum í mótið og það er mikil tilhlökkun hjá leikmönnum sem og stuðningsmönnum fyrir sumrinu.

Er ekki mikil gleði í hópnum eftir sigur í Lengjubikarnum?
Jú, það er mikil gleði hjá okkur eftir sigur í Lengjubikarnum. Ég held að tilfinningin að vinna bikar sé alltaf eins góð, hvort sem maður er að spila í 5. flokki eða í Meistaradeildinni. Hvert lið fær úthlutað ákveðnum verkefnum og að standa uppi sem sigurvegari er ávallt jafn sætt. Það er ekkert á hverjum degi sem lið í meistaraflokki fær tækifæri til að spila til verðlauna þannig að við erum mjög glaðir eftir að hafa fengið gullmedalíu fyrir sigur í C deild Lengjubikarsins.

Er liðið mikið breytt frá því í fyrra?
Við stokkuðum upp hjá okkur leikmannahópinn í fyrra og byrjuðum að byggja upp nýtt lið með 2-3 ára markmið.
Við notuðum yfir 30 leikmenn í mótinu í fyrra, sem veit ekki á gott til árangurs, en við vorum samt í baráttunni um sæti í úrslitum allt sumarið. Goðsögnin Jóhann Bjarnason hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna eftir rúmlega 120 leiki fyrir félagið. Það er mikill missir af honum bæði af vellinum og í búningsklefanum. Við höldum annars öllum okkar lykilleikmönnum og höfum verið að fá góðan liðsstyrk. Litli GÁB, sem er markahæsti leikmaður félagsins frá upphafi, er kominn til baka eftir að hafa reynt fyrir sér erlendis. Það er gríðalega mikill styrkur að fá hann til baka og hann á eftir að minna á sig í sumar. Við höfum einnig fengið tvo sterka markverði til liðs við okkur. Fylkismanninn knáa Steinar Örn Stefánsson sem spilaði flest alla leikina í deildarbikarnum og styrkir liðið gríðarlega ásamt slavneska tröllinu Matus Mucha.

Er mikið samstarf hjá liðinu við Selfoss?
Já, það er mikið og gott samstarf við Selfoss og frábærir hlutir að gerast í fótboltanum á Selfossi. Okkar hlutverk í samstarfinu er að veita þeim leikmönnum sem eru að koma upp úr 2. flokknum eða úr meiðslum verðug verkefni. Við leggjum gríðarlega áherslu á að vera með eins faglegt starf og mögulegt er til þess að leikmennirnir geti bætt sig. Það munu 2-3 leikmenn frá Selfoss spila með okkur í sumar.

Hvernig hefur undirbúningstímabilinu hjá ykkur verið háttað?
Við erum í góðu samstarfi við Sævar Sig og strákana í Knattspyrnuakademíunni og höfum verið að æfa í Kórnum í allan vetur. Við fórum líka nýjar leiðir á þessu undirbúningstímabili, stunduðum rússneskar ketilbjöllulyftingar og jóga. Þessi blandaði æfingakjarni á eftir að koma okkur vel þegar líður á mótið. Við spiluðuðum ekki eins marga leiki ár eins og í fyrra og það var með ráðum gert. Þó svo að okkur hafi gengið ágætlega á undirbúningstímabilinu þá eigum við alveg helling inni. Við erum bara þolinmóðir að vinna í því að bæta okkar leik. Fótbolti er einföld íþrótt en það þarf margt til.

Hver er helsti styrkleiki ykkar?
Umgjörðin í kringum liðið, við erum með stóran hóp af snillingum sem halda utan um klúbbinn. Við settumst niður með nýkjörnum formanni í fyrra og lögðum áherslu á að skapa umgjörð í kringum liðið sem við gætum verið stoltir af. Við höfum síðan safnað saman stóru baklandi af gríðalega öflugum mannskap og við ætlum okkur langt. Við leggjum mikla áherslu á að vera alvöru klúbbur með flotta umgjörð og það mun skila sér út á völlinn.

Hver eru markmið ykkar fyrir sumarið?
Markmið okkar eru skýr, við ætlum að gera harða atlögu að sigri í 3. deild.

Er einhver leikmaður úr ykkar liði sem þú telur að eigi eftir að springa út í sumar?
Við erum með marga leikmenn í okkar hópi sem gætu spjarað sig í efri deildum. Framarinn Hafþór Theodórson er leikmaður sem lofar góðu og gæti stolið fyrirsögnunum í sumar. Hann var á tíma á mála hjá Bournemouth í Englandi en er kominn heim og er einn af lykil leikmönnum okkar. Hafþór er demantur sem við erum búnir að vera að slípa niður í allan vetur og á eftir að reynast okkur vel þegar líða fer á mótið.

Hvaða lið telur þú að sé sigurstranglegast í 3. deildinni í sumar?
Ég held að mótið verði jafnt í sumar. 3. deildarliðin af Reykjavíkursvæðinu líða svolítið fyrir það hve lítið er af fjármagni í efri deildunum og þess vegna er erfiðara að fá efnilegu strákana lánaða. Í A riðli munum við berjast við Ými sem er eitt besta liðið í deildinni, þeir verða klárir fyrir toppbaráttu. Sindra hefur ekki gengið vel á undirbúningstímabilinu en þeir verða sterkir í sumar. Það spurning hvort þeir fái einhverja útlendinga eða hvort þeir ætli að byggja á heimamönnum. Ægirs liði mun veita harða mótspyrnu og gera atlögu að toppbaráttunni í riðlinum. Léttir er ákveðið spurningamerki en geta klárlega verið með gott lið.
B riðillinn verður mjög spennandi, ég býst við KB liðinu mjög sterku, Álftanes er líka með mjög fínt lið, Augnablik með betra lið en þeir hafa verið að sýna, KFS verða í barráttu um að komast í úrslit. KFR liðið er það lið sem mun koma mest á óvart.
Í C riðlinum hefur KV gengið mjög vel á undirbúningstímabilinu. Ég býst við að þeir vinni riðilinn. Baráttan verður um annað sætið. Hvíti Riddarinn er með mjög skemmtilegt lið og vel spilandi. Þeir eru samt mjög ungir ,’89-´91 módel, og spurning hvernig þeir spila úr mótinu. Þeir gætu samt klárlega farið í úrslit. Berserkir voru eitt besta liðið í fyrra en eru búnir að missa fullt af leikmönnum, erfitt að segja til um þá. Kæmi mér samt ekkert á óvart ef þeir færu í úrslit.
D riðillinn er það sem hin liðin hræðast. Ég hef ekkert séð af norðan liðunum en þetta eru aðalliðin í bæjarfélögunum og þar er æft samkvæmt því. Völsungarnir eru eflaust með hörku lið og öll ungu heimabörnin eru reynslunni ríkari eftir að hafa fengið að spila undanfarin ár. Dalvík er klárlega líka eitt besta liðið í 3. deildinni. Huginn og Leiknir F ná ekki að ógna þessum tveimur. Liðin sem þarf að fara í gegnum til að vinna 3. deildina í sumar eru Völsungur og Dalvík.

Eitthvað að lokum?
Við Árborgarmenn óskum liðum 3. deildarinnar góðs gengis í sumar og vonum að sumarið verði eftirminnilegt.

Eldra úr liðnum Hvað er að frétta?

1.deild:
Víkingur Ólafsvík (26.mars)

2.deild:
BÍ/Bolungarvík (29.apríl)
Hamar (21.apríl)
ÍH/HV (17.apríl)
Reynir Sandgerði (3.apríl)

3.deild:
Berserkir (1.maí)
Draupnir (25.mars)
Einherji (16.apríl)
KFR (31.mars)
KFS (30.apríl)
Léttir (8.maí)
Athugasemdir
banner
banner
banner