Varane, Diaz, Matip, Yamal, Davies og Rashford koma við sögu
banner
   fös 01. maí 2009 10:29
Magnús Már Einarsson
3.deild: Hvað er að frétta af Berserkjum?
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Einar Guðnason.
Einar Guðnason.
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Mynd: Vignir Egill
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Þá er komið að liðnum "Hvað er að frétta?" hér á Fótbolti.net en þar kíkjum við á stemninguna hjá liðum í fyrstu, annarri og þriðju deild.

Í dag er kíkt á stemninguna hjá liði Berserkja í 3.deild en Einar Guðnason spilandi þjálfari liðsins svaraði nokkrum spurningum.


Hvernig er stemmningin hjá Beserkjum þessa dagana?
Stemningin á æfingum er góð sérstaklega andlega þó að við höfum misst af feitum bita, Davíð Þór Rúnarssyni, sem tók lið í Pepsi deildinni fram yfir Berserki. Það fer þó í taugarnar á mönnum að félagið er ekkert að drukkna í æfingatímum.

Hvernig er liðið uppbyggt?
Liðið er 90% byggt á uppöldum Víkingum. Það eru ekki mörg lið í heiminum sem státa af því. Það hafa líka verið að detta inn gullmolar sem annaðhvort eru fyrrum leikmenn meistaraflokks Víkings eða hafa jafnvel aldrei leikið í hinum gullfallegu rauðu og svörtum búningum.

Er liðið mikið breytt frá því í fyrra?
Já það er ekki hægt að segja annað. Það eru þrír leikmenn farnir erlendis í nám og aðrir þrír farnir aftur í Víking sem er okkur mikil gleðitíðindi og svo auðvitað nokkrir sem hafa verið að detta út vegna anna.
Á móti höfum við verið að dusta rykið af nokkrum reynsluboltum sem eiga eftir að finna gleðina í sumar.

Er félagið í miklu samstarfi við Víking?
Tilgangur Berserkja við stofnun félagsins var styrkja stoður mfl Víkings og að ungir Víkingar fengju leikreynslu. Það hefur gengið vel hingað til sem sýnir sig í því að það eru nokkrir leikmenn mfl Víkings sem eig leiki með Berserkjum. Víkingur sá sig engu að síður knúinn til þess að segja upp 2.fl samstarfi félaganna fyrr í vetur. En það mun vonandi bara leiða eitthvað annað gott af sér.
Í dag er helsta samstarfið þannig að Berserkir vinna ýmis verkefni fyrir Víking og fá æfingatíma í staðinn, leikmenn Berserkja mæta á leiki Víkings og öfugt og svo gleðjumst við stundum saman um helgar enda erum við allir af sama sauðahúsinu.

Hvernig hefur undirbúningstímabilinu verið háttað hjá ykkur?
Það hefur ekki verið til fyrirmyndar. Við höfum náð alltof fáum æfingum saman, spilað alltof fáa leiki saman fyrir utan það að stór hluti leikmanna hafa dottið í barneignir sem hafa haldið þeim frá knattspyrnulegu líferni.

Ertu sáttur við árangur liðsins í æfingaleikjum og Lengjubikar?
Nei alls ekki. Leikmenn liðsins vita það best sjálfir. Við höfum verið að spila eins Tottenham á köflum sem er aldrei af hinu góða. Við höfum samt verið að gera ágæta hluti inná milli sem við munum reyna að byggja á í sumar þannig að við horfum bjartsýnir fram á veginn.

Hver er helsti styrkleiki ykkar?
Líkt og síðasta sumar mun það verða liðsheildin og karkterinn sem drífur liðið áfram. Sterkari liðsheild hef ég ekki orðið vitni af. Berserkir gefast aldrei upp! Reynsla og hæfileikar leikmanna mun vonandi spila eitthvað hlutverk líka.

Hvert er markmið liðsins í sumar?
Markmiðið liðsins er að vinna hvern einasta leik sem við förum í sama á móti hvaða liði við spilum. Ég hef líka heyrt það útundan mér að einstaka leikmenn hafi það markmið að vinna leikina sjálfir svo að þjálfarinn sem leggur skóna á hilluna í hverri viku þurfi ekki í einhverju egóflippi að skipta sjálfur sér inná til að redda hlutunum og fá svo fyrirsagnir á fotbolti.net. Ég vil taka það fram að þessar fyrirsagnir hafa verið til fyrirmyndar.

Er einhver leikmaður úr ykkar liði sem þú telur að eigi eftir að springa út í sumar?
Húsavíkurjógúrtið Jóhannes Gunnarsson eða ”Kóngurinn” eins og hann er kallaður þar nyðra mun öðlast nýtt líf sem fótboltamaður í röndóttu treyjunni. Þá leiki sem hann hefur spilað í vetur hefur verið engu líkara en sjálfur Nigel Winterburn sé mættur í bakvörðinn.
Ég hef líka óbilandi trú á Pétri Mikael Guðmundssyni sem tekur framförum á hverjum degi enda er kvikindið á séræfingum allan daginn. Hina vil ég ekki nefna þar sem þeir eru leynivopn

Hvaða lið telur þú sigurstranglegast í 3. deildinni í sumar?
KV hafa verið að spila vel og eru búnir að snýta nokkrum 2.deildarliðum í vor þannig að þeir hljóta að teljast sigurstranglegir. Þeir eru líka með stóran hóp og fastar æfingar á skemmstöðum borgarinnar sem er til fyrirmyndar.
Mínir gömlu félagar í Völsungi eru líka með ungt og efnilegt lið sem ég vona svo sannarlega að springi út í sumar og drulli sér uppúr þessari deild sem þeir eiga ekki heima í.

Eitthvað að lokum?
Ég vil biðja alla Víkinga um að mæta í Víkina og styðja sín lið, bæði Víking og Berserki. Sérstaklega vil ég biðja þá sem hafa látið sig vanta síðustu ár um að fara að mæta. Um þessar mundir er blússandi uppgbygging í Víkinni sem enginn Víkingur ætti að missa af!!

Eldra úr liðnum Hvað er að frétta?

1.deild:
Víkingur Ólafsvík (26.mars)

2.deild:
BÍ/Bolungarvík (29.apríl)
Hamar (21.apríl)
ÍH/HV (17.apríl)
Reynir Sandgerði (3.apríl)

3.deild:
Draupnir (25.mars)
Einherji (16.apríl)
KFR (31.mars)
KFS (30.apríl)
Athugasemdir
banner
banner
banner