Man Utd og Arsenal vilja Guehi - Osimhen gæti farið til Chelsea eða PSG - Geertruida gæti fylgt Slot til Liverpool
   mán 01. apríl 2024 15:08
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Venezia glutraði niður tveggja marka forystu - Hjörtur ekki í hóp
Landsliðsmaðurinn Hjörtur Hermannsson er ekki í góðri stöðu hjá Pisa.
Landsliðsmaðurinn Hjörtur Hermannsson er ekki í góðri stöðu hjá Pisa.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Bjarki Steinn byrjaði hjá Venezia.
Bjarki Steinn byrjaði hjá Venezia.
Mynd: Getty Images
Leikjum hjá Íslendingaliðunum í ítölsku B-deildinni var rétt í þessu að ljúka. Brescia og Pisa unnu sigra en Venezia tapaði á heimavelli.

Birkir Bjarnason kom inn á sem varamaður í lið Brescia á 63. mínútu þegar staðan var jöfn gegn Cosenza á útivelli. Stundarfjórðungi síðar skoraði Brescia sigurmark og er Brescia í 7. sæti sem stendur, með 42 stig þegar sjö umferðir eru eftir. Birkir hefur komið við sögu í öllum leikjum Brescia á tímabilinu nema einum og skorað fjögur mörk.

Hjörtur Hermannsson var ekki í leikmannahópi Pisa þegar liðið vann 4-3 heimasigur gegn Palermo. Palermo komst í 0-2 í leiknum og 2-3 en Pisa kom til baka og er liðið nú í 8. sæti deildarinnar, síðasta umspilssætinu. Hjörtur hefur ekki komið við sögu í liði Pisa síðan 24. febrúar.

Venezia komst í góða stöðu gegn Reggiana, leiddu með tveimur mörkum eftir 33 mínútur en gestirnir í Reggiana komu til baka og unnu 2-3 sigur. Bjarki Steinn Bjarkason byrjaði leikinn hjá Venezia og spilaði fyrstu 82 mínúturnar og Mikael Egill Ellertsson kom inn á sem varamaður á 89. mínútu. Venezia er í 3. sæti deildarinnar eftir tapið. Como nýtti sér tap Venezia og kom sér upp í 2. sætið.

Í dönsku B-deildinni gerði Íslendingaliðið Kolding 1-1 jafntefli gegn Hobro í efra umspilinu. Þeir Ari Leifsson og Davíð Ingvarsson léku allan leikinn hjá Kolding en gamli Blikinn, Thomas Mikkelsen, þurfti að fara af velli á 10. mínútu. Kolding er í 5. sæti deildarinnar og á ekki raunhæfan möguleika á því að komast upp í Superliga.

Loks tapaði Varberg gegn Brage í sænsku B-deildinni. Óskar Tor Sverrisson lék alla leikina í liði Varberg sem féll úr úrvalsdeildinni á síðasta tímabili.
Athugasemdir
banner
banner