Man Utd og Arsenal vilja Guehi - Osimhen gæti farið til Chelsea eða PSG - Geertruida gæti fylgt Slot til Liverpool
   þri 09. apríl 2024 10:54
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Aachen
Augljóst hvaða leikmaður hræðir Þýskaland mest
Icelandair
Sveindís Jane Jónsdóttir.
Sveindís Jane Jónsdóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sveindís hefur leikið frábærlega að undanförnu.
Sveindís hefur leikið frábærlega að undanförnu.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
„Við vitum að Sveindís er einfaldlega framúrskarandi leikmaður," sagði Vivien Endemann, liðsfélagi Sveindísar Jane Jónsdóttur hjá Wolfsburg, fyrir leik Íslands og Þýskalands sem er á eftir.

Það er augljóst þegar lesið er í þýska fjölmiðla að Sveindís Jane sé leikmaður sem hræðir Þjóðverja.

Sveindís missti af síðustu tveimur leikjum gegn Þýskalandi í Þjóðadeildinni vegna meiðsla og innkoma hennar í liðið fyrir leikinn í kvöld er afar mikilvæg.

Sveindís hefur gert ótrúlega vel í að koma til baka eftir erfið meiðsli og hefur hún verið stórkostleg í síðustu tveimur leikjum Íslands gegn Serbíu og Póllandi. Í kvöld er það svo Þýskaland í öðrum leik liðsins í undankeppni EM.

„Sveindís er ekki með ógnarlegan hraða. Hún getur líka tekið rosalega löng innköst og þau eru mikið vopn," segir Endemann.

Miðvörðurinn Kathrin Hendrich talaði líka um Sveindísi fyrir leikinn. „Við verðum að vera alveg ofan í henni þegar hún fær boltann. Við megum ekki gefa henni neitt svigrúm því það er rosalega erfitt að halda í við hana þegar hún kemst á ferðina," segir Hendrich.

Langaði að fá þær aftur
Sveindís spilar í Þýskalandi með Wolfsburg en hún var spurð út í leikinn við Þjóðverja eftir sigurinn á Póllandi á dögunum.

„Við spiluðum við þær í Þjóðadeildinni og erum með tvo leiki sem við getum skoðað og bætt okkur í einhverjum hlutum frá því síðast. Við förum vel yfir það. Svo er það að taka íslensku geðveikina og vonandi ná í sigur," sagði Sveindís eftir leikinn gegn Póllandi.

„Mig langaði að fá þær aftur. Mig langaði svo að spila á móti þeim því maður þekkir svo margar þarna. Ég sé alveg mikla möguleika fyrir okkur. Mér finnst við geta strítt þeim. Þær eru með frábært lið en mér finnst við líka vera mjög góðar."
Athugasemdir
banner
banner
banner