
Sveindís Jane Jónsdóttir er mætt aftur í íslenska landsliðið. Hún spilaði í kvöld sinn fyrsta landsleik síðan í júlí á síðasta ári en hún hefur verið að glíma við erfið meiðsli.
„Þetta er alltaf jafngaman. Ég er búin að bíða eftir þessu í smá tíma og það er gaman að vera komin aftur," sagði Sveindís eftir 1-1 jafntefli gegn Serbíu í umspili Þjóðadeildarinnar í kvöld.
„Þetta er alltaf jafngaman. Ég er búin að bíða eftir þessu í smá tíma og það er gaman að vera komin aftur," sagði Sveindís eftir 1-1 jafntefli gegn Serbíu í umspili Þjóðadeildarinnar í kvöld.
Lestu um leikinn: Serbía 1 - 1 Ísland
„Ég hef hugsað mjög mikið um þetta. Það er erfitt að vera svona fyrir utan og horfa á leikina, en þær stóðu sig vel og tryggðu okkur þessa umspilsleiki. Núna þurfum við bara að klára næsta leik."
Hvernig var að koma aftur inn í hópinn eftir svona langa fjarveru?
„Það er alltaf jafngaman að hitta stelpurnar og alltaf jafnmikil stemning. Við erum allar peppaðar og spenntar fyrir þessu verkefni. Mér líður eins og ég held hafi aldrei farið, en ég missti af sex mikilvægum leikjum og það er ekki gaman."
Sveindís var að glíma við hnémeiðsli en það reyndist erfitt fyrir hana að jafna sig alveg á þeim. Þetta voru leiðinleg meiðsli sem sköpuðu óvissu. „Patella sinin í hnénu var eitthvað mjög rifin. Það eina sem ég gat var að vera í endurhæfingu og að bíða eftir því að hún myndi gróa. Það tók sinn tíma."
„Þetta var mjög leiðinlegt því mér fannst þetta taka mjög langan tíma. Þetta eru erfið meiðsli og það var erfitt að segja til um hvenær maður kæmist aftur í fótbolta. Ég var svo heppin að ég gat hlaupið allan tímann þannig að ég var ekki að detta úr formi þannig séð. Þetta var mjög erfitt en ég er mjög glöð að vera búin með þetta og vera komin aftur."
„Já, ég get alveg sagt að ég er 100 prósent. Mér líður líka vel eftir þennan leik en ég er ekki búin að spila 90 mínútur í langan tíma."
„Þetta er allt í góðu núna, allt í topplagi."
Alls ekki nógu góður leikur
En að leiknum í dag sem endaði með 1-1 jafntefli. Hvernig fannst Sveindísi þessi leikur?
„Við vorum mjög lengi að byrja þennan leik fannst mér. Við áttum svolítið erfitt með þær og við vorum svolítið mikið að elta. Mér fannst við ekki spila nægilega vel en við erum heppnar að þetta er tveggja leikja einvígi. Við eigum seinni leikinn eftir og við þurfum bara að vinna hann til að halda okkur í A-deild."
„Leikurinn í dag var alls ekki nógu góður. Við þurfum að skoða hvað við gerðum vel og hvað fór ekki nægilega vel. Við þurfum að laga það fyrir næsta leik."
Sveindís telur Ísland vera með betra lið en Serbíu. „Mér finnst það, já. Við eigum að gera betur á móti þeim. Þær eru með góða leikmenn en við erum með fleiri góða leikmenn og við eigum að spila betur sem lið. Við tókum góðan undirbúning fyrir leikinn og hefðum átt að sýna betri frammistöðu. Þetta var frekar lélegur leikur og ekki gaman að horfa á held ég. Við tökum bara næsta leik og þá erum við í góðum málum."
„Þetta er erfiður útivöllur og þær koma mjög gíraðar inn í leikinn. Eftir að við skorum okkar mark þá fannst mér við vera svolítið yfir. Það er gott að ná jafntefli án þess að eiga sérstakan leik. Við eigum seinni leikinn eftir heima og við erum mjög gíraðar í þann leik."
Seinni leikurinn er á Kópavogsvelli en Sveindís á góðar minningar þaðan.
„Ég spilaði eitt tímabil með Breiðabliki og það var geggjað tímabil. Ég er ógeðslega spennt að koma þangað aftur. Ég hef varla farið á Kópavogsvöll síðan ég var þar. Ég hef spilað vel þar og vonandi heldur það bara áfram," sagði Sveindís en viðtalið við hana má sjá í heild sinni hér fyrir ofan.
Athugasemdir