Man Utd og Arsenal vilja Guehi - Osimhen gæti farið til Chelsea eða PSG - Geertruida gæti fylgt Slot til Liverpool
   þri 12. ágúst 2014 13:00
Arnar Daði Arnarsson
Bestur í 15. umferð: Horft á mig þegar illa gengur
Jóhannes Karl Guðjónsson (Fram)
Jóhannes Karl í leik með Fram í sumar.
Jóhannes Karl í leik með Fram í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Jóhannes Karl hefur verið gagnrýndur talsvert í sumar.
Jóhannes Karl hefur verið gagnrýndur talsvert í sumar.
Mynd: Ingólfur Hannes Leósson
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
,,Ég hef fengið aðeins öðruvísi hlutverk í síðustu tveimur leikjum og ég hef fengið að færa mig aðeins framar á vellinum. Mér líður betur þar og það hefur sýnt sig í betri frammistöðu hjá mér í síðustu leikjum," sagði Jóhannes Karl Guðjónsson miðjumaður Fram við Fótbolta.net í dag en hann er leikmaður 15. umferðar í Pepsi-deild karla.

Jóhannes Karl hefur verið í hinum ýmsum hlutverkum í liði Fram í sumar. Í síðustu tveimur umferðum hefur hann verið í stöðu fremri miðjumanns.

Nýtur sín í nýju hlutverki
,,Ég hef verið að leysa þær stöður sem vantað hefur í, þegar menn voru að taka út leikbönn eða meiddir. Ég hef verið að leysa stöður í vörninni og aftar á miðjunni og ekki verið með það frjálsræði sem ég hef haft í síðustu tveimur leikjum. Það er hlutverk sem ég hef reynt að leysa eins best og ég get."

,, Ég hef fundið mig vel í því hlutverki að vera með frjálsræði og vera framar á vellinum. Ég er að njóta mín í þessu nýja hlutverki og það er vonandi að mín frammistaða haldi áfram að hjálpa liðinu í þessari fallbaráttu," sagði Jóhannes sem Framarar hafa unnið síðustu tvö leiki í deildinni og fært sig upp úr fallsæti.

,,Við höfum náðum að skerpa á áherslu atriðum. Við vorum að fá alltof mörg mörk á okkur og við höfum verið að vinna mikið í því að undanförnu að reyna loka fyrir markinu okkar. Það hefur gengið betur í síðustu leikjum."

,,Við vitum að við getum verið skeinuhættir fram á við sem lengi sem við erum þéttir til baka. Ég er sérstaklega ánægður með að hafa haldið hreinu í þessum tveimur leikjum. Það er rosalega mikilvægt fyrir okkur. Það gefur okkur aukið sjálfstraust að við séum farnir að skora mörk. Það var mjög mikilvægt fyrir okkur að fá Guðmund Stein til baka eftir meiðsli. Hann gefur okkur helling í sóknarleiknum," sagði Jóhannes sem telur síðustu tvo sigra, hafa verið sigra liðsheildarinnar.

Engin örvænting í félagaskiptaglugganum
Fyrir síðustu tvo leiki höfðu Framarar einungis innbyrt 9 stig í 13 leikjum. Margir höfðu afskrifað Fram í botnbaráttunni. Miklar breytingar urðu á Fram-liðinu fyrir tímabilið, nýtt þjálfarateymi og margir nýir leikmenn. Jóhannes Karl segir að það hafi alltaf verið ljóst að tímabil í ár, yrði erfitt í Safamýrinni.

,,Við vissum að þegar kæmi inn í mótið þá yrði þetta mjög erfitt fyrir okkur með alveg glænýtt lið. Þetta er búið að vera mikil baráttu en Bjarni og Úlfur hafa staðið fast á sínu og hvernig þeir vilja hafa þetta og hvernig þeir stefna á að byggja þetta upp til framtíðar. Það sást vel í félagsskiptaglugganum, þar var ekkert verið að sækja einhverja leikmenn í örvæntingu. Bjarni hefur haft fulla trú á þessum hóp, sem er auðvitað frábært."

Ekki áhyggjur af því hvað fjölmiðlar segja
Jóhannes Karl hefur fengið mikla gagnrýni vegna spilamennsku sinnar í sumar og var til að mynda í "Ekki liði" fyrri umferðar hér á Fótbolta.net.

,,Þegar illa gengur þá er auðvitað horft til mín þar sem margir vilja meina að ég eigi að bera þetta lið uppi. Það getur verið eriftt fyrir hvern sem er að taka það hlutverk. Ég vil miklu frekar vera hluti af sterkri liðsheild frekar en að vera eini maðurinn sem á að bera þetta lið uppi."

,,Það er kannski ekki rétt að horfa á þetta með því sjónarhorni að einn leikmaður eigi að gera allt. Það er aldrei gott í neinu liði. Ég hef reynt að leggja ennþá harðara að mér og reynt að skila mínu fyrir liðið. Það er það sem skiptir mestu máli fyrir mig, að liðið standi sig vel. Ég hef ekki alltaf haft mestar áhyggjur af því hvað fjölmiðlar hafa að segja um mig. Ég er auðvitað líka gagnrýnin á sjálfan mig og Bjarni sömuleiðis," sagði Jóhannes Karl sem segist vera bjartsýnn með framhaldið.

,,Þetta lítur mun betur út núna en fyrir tveimur leikjum. Það eru mörg lið í þessari fallbaráttu og við þurfum að taka hvern leik sem úrslitaleik. Þetta verður rosaleg barátta. Ég er bjartsýnn á að við höfum getu til að halda okkur í deildinni og það er eitthvað sem við ætlum okkur að gera," sagði Jóhannes Karl Guðjónsson, leikmaður 15. umferðar að lokum.

Sjá einnig:
Leikmaður 13. umferðar - Igor Taskovic (Víkingur R.)
Leikmaður 12. umferðar - Arnar Már Björgvinsson (Stjarnan)
Leikmaður 11. umferðar - Aron Elís Þrándarson (Víkingur R.)
Leikmaður 10. umferðar - Jeppe Hansen (Stjarnan)
Leikmaður 9. umferðar - Kristján Gauti Emilsson (FH)
Leikmaður 8. umferðar - Aron Elís Þrándarson (Víkingur)
Leikmaður 7. umferðar - Pape Mamadou Faye (Víkingur)
Leikmaður 6. umferðar - Veigar Páll Gunnarsson (Stjarnan)
Leikmaður 5. umferðar - Ögmundur Kristinsson (Fram)
Leikmaður 4. umferðar - Ólafur Karl Finsen (Stjarnan)
Leikmaður 3. umferðar - Elías Már Ómarsson (Keflavík)
Leikmaður 2. umferðar - Jonas Sandqvist (Keflavík)
Leikmaður 1. umferðar - Mads Nielsen (Valur)
Athugasemdir
banner
banner
banner