Bayern reynir aftur við Walker - Neves til Man Utd?
banner
   sun 03. júní 2018 23:15
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Óli Kristjáns um D-riðil: Ekkert er ómögulegt
Ísland er í D-riðli.
Ísland er í D-riðli.
Mynd: Fótbolti.net - Einar Ásgeirsson
Ólafur Kristjánsson.
Ólafur Kristjánsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Óli efast um að Messi og félagar geti orðið Heimsmeistarar.
Óli efast um að Messi og félagar geti orðið Heimsmeistarar.
Mynd: Getty Images
Óli starfaði í kringum Ísland á EM 2016.
Óli starfaði í kringum Ísland á EM 2016.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Riðillinn er mjög sterkur eins og margoft hefur komið fram. Ég tel Ísland ekki vera í "góðum" möguleika á að komast áfram, en ekkert er ómögulegt," segir Ólafur Kristjánsson, þjálfari FH, um riðil Íslands á Heimsmeistaramótinu í Rússlandi.

Ísland er með Argentínu, Nígeríu og Króatíu í riðli á mótinu, en í dag birti Fótbolti.net spá sína fyrir mótið. Þar er Íslandi spáð öðru sæti á eftir Argentínumönnum.

Spá Fótbolta.net fyrir D-riðil:

1. sæti. Argentína, 43 stig
2. sæti. Ísland, 27 stig
3. sæti. Króatía, 25 stig
4. sæti. Nígería, 15 stig

Við fengum Ólaf Kristjánsson í að segja okkur aðeins meira um riðil Íslands, en það eru ekki margir sem vita meira en hann um íslenska landsliðið. Hann starfaði í kringum liðið á EM 2016 og var þá að aðstoða liðið og njósna um önnur lið.

„Til þess að komast áfram þá þarf að vinna einn leik og sækja stig í að minnsta kosti einum leik af hinum tveimur. Fyrirfram myndi maður segja að Nígeríuleikurinn væri sá leikur sem gæfi mesta von um sigur," segir Óli.

Klassísk íslensk uppskrift
Fyrsti leikur Íslands á mótinu verður gegn Argentínu, gegn Lionel Messi og félögum.

„Ég vona að liðið nái að spila "lokaðan" leik sem gæti pirrað Argentínumennina. Einnig vona ég að skyndisóknir og föst leikatriði gefi möguleika. Einfaldlega þessi klassíska íslenska uppskrift undanfarinna ára hjá landsliðinu," segir Óli um þann leik en hvernig stoppum við Messi?

„Ég held að það sé mjög erfitt að stoppa Messi algjörlega, en með því að spila lokaðan leik og ekki gefa mikil svæði á síðasta þriðjungi vallarins, þá er mögulega hægt að halda honum aðeins í skefjum.
Pressan er á Argentínu, það eru væntingar til þeirra og vonandi getum við náð að fara undir húðina hjá þeim og fengið þá til að missa einbeitingu."


Í riðlinum eru einnig Króatía og Nígería. Við þekkjum Króatana inn og út eftir að hafa spilað mikið við þá síðustu ár. Við þekkjum Nígeríu ekki eins vel. Hvernig nær Ísland úrslitum gegn þessum liðum?

„Í raun og veru með sömu uppskrift og Argentínu leikurinn. Lykillinn að velgengni hjá íslenska liðinu er agaður varnarleikur, einfaldur beinskyttur sóknarleikur, skyndisóknir og föst leikatriði sóknarlega."

„Hvernig leikirnir svo þróast er svo ekki alfarið í okkar höndum en ég gæti trúað að Heimir og félagar vildu hafa þá eins mikið á nefndum forsendum og hægt er."

Segjum svo að Ísland fer upp úr riðlinum. Þá mætum við liði úr C-riðli í 16-liða úrslitum, en þar leika Ástralía, Danmörk, Frakkland og Perú. Hversu langt getum við farið í þessu móti ef við komumst upp úr riðlakeppninni?

„Ef Ísland fer áfram þá verður það sennilegast í öðru sæti riðilsins og þá er líklegast að mæta Frökkum, Alls ekki óskamótherji. Óskamótherjinn væri að sjálfsögðu Danir, Það er góður möguleiki á að sigra þá eins og staðan er á liðunum núna og yrði það varla toppað að fá leik við þá í 16-liða úrslitum og senda þá heim."

„Efast um að þeir geti orðið Heimsmeistarar"
Messi er auðvitað stjarnan í þessum riðli. Hann verða önnur lið að stoppa til þess að eiga möguleika gegn Argentínu.

„Messi er einn besti leikmaður sögunnar, afrek hans og leikur tala sínu máli. Það hafa verið svo margir góðir leikmenn í gegnum tíðina að erfitt og ósanngjarnt er að bera saman, leikurinn hefur líka breyst svo mikið. Messi er allavega einn sá besti af hans kynslóð ásamt Portúgalanum hjá Real," segir Óli um Messi.

Messi er auðvitað magnaður, en munu einhverjir aðrir leikmenn stela senunni í þessum riðli?

„Vonandi einhver íslenskur, en er ekki upplagt að segja Modric? Búinn að vera frábær hjá Real Madrid í vetur."

Argentínumenn fóru í úrslitaleikinn fyrir fjórum árum en töpuðu þar fyrir Þýskalandi eftir framlengdan leik. Geta þeir tekið eitt skref fram á við núna og orðið Heimsmeistarar?

„Þeir hafa slík gæði í hópnum hjá einstaka leikmönnum, en ég set spurningarmerki við liðsheildina. Þú þarft meira en einn leikmann eða tvo sem eru í heimsklassa. Ég efast um að þeir geti orðið Heimsmeistarar," sagði Óli að lokum.

Sjá einnig:
Elísabet rýnir í A-riðil: Eiga ekki séns án Salah
Heimir Guðjóns rýnir í B-riðil: Barátta Portúgals og Íran
Óli Stefán rýnir í C-riðil: Bendtner tekur fyrirsagnirnar
Athugasemdir
banner
banner
banner