Man Utd og Arsenal vilja Guehi - Osimhen gæti farið til Chelsea eða PSG - Geertruida gæti fylgt Slot til Liverpool
banner
   lau 30. mars 2024 22:09
Brynjar Ingi Erluson
England: Brentford með algera yfirburði í dramatísku jafntefli gegn Man Utd
Svipurinn á Ivan Toney segir eiginlega alla söguna
Svipurinn á Ivan Toney segir eiginlega alla söguna
Mynd: Getty Images
Mason Mount skoraði sitt fyrsta mark fyrir United
Mason Mount skoraði sitt fyrsta mark fyrir United
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Brentford 1 - 1 Manchester Utd
0-1 Mason Mount ('90 )
1-1 Kristoffer Ajer ('90 )

Brentford og Manchester United gerðu dramatískt, 1-1, jafntefli í 30. umferð ensku úrvalsdeildarinnar á Community-leikvanginum í kvöld en gestirnir geta prísað sig sæla að hafa tekið stig úr leiknum.

Heimamenn voru allt í öllu í fyrri hálfleiknum. Ivan Toney átti skot sem hafnaði í stöng og þá átti Mathias Jörgensen skalla sem fór af slánni.

Vitaly Janelt setti þá boltann rétt framhjá undir lok fyrri hálfleiks en Brentford átti samtals 14 marktilraunir í fyrri hálfleiknum.

Rasmus Höjlund, framherji Man Utd, hafði átt fremur rólegan fyrri hálfleik en kom sér í gott færi snemma í þeim síðari. Mark Flekken sá hins vegar við honum með laglegri vörslu.

André Onana, markvörður United, vildi ekki vera minni maður og tók tvöfalda vörslu stuttu síðar. Fyrst frá Yehor Yarmoliuk áður en hann varði frá Keane Lewis-Potter með hnénu.

Ivan Toney kom boltanum í netið á 73. mínútu leiksins með laglegri afgreiðslu en VAR tók markið af honum vegna rangstöðu. Tæpt var það.

Bryan Mbeumo komst nálægt því að koma Brentford í forystu nokkrum mínútum síðar en aftur bjargaði tréverkið United, en í þetta sinn fór skotið í slá.

Toney átti þá annað færi stuttu síðar en það færi fór forgörðum eins og önnur í leiknum.

Á sjöttu mínútu í uppbótartíma skoraði varamaðurinn Mason Mount fyrir United, þvert gegn gangi leiksins. Þetta var hans fyrsta mark frá því hann kom frá Chelsea síðasta sumar. Casemiro lagði boltann inn á Mount sem setti boltann í hægra hornið en Adam var ekki lengi í paradís.

Norski varnarmaðurinn Kristoffer Ajer jafnaði metin stuttu síðar með skoti úr miðjum teignum. Brentford henti fleiri treyjum fram völlinn. Toney fékk boltann inn fyrir hægra megin, keyrði upp að endalínu áður en hann lagði boltann á Ajer sem setti boltann þéttingsfast á mitt markið.

Verðskuldað mark hjá heimamönnum sem eru samt sem áður sárir að hafa aðeins fengið stig úr þessum leik. United ánægt að hafa lifað af þetta kvöld en svekkt að hafa ekki boðið upp á betri frammistöðu.

Brentford átti 31 skot í leiknum en þetta er í fyrsta sinn sem félagið tekst það. United átti ellefu tilraunir.

United er áfram í 6. sæti deildarinnar með 48 stig, átta stigum frá Tottenham sem er í 5. sæti. Brentford er í 15. sæti með 27 stig.
Athugasemdir
banner
banner
banner