Bayern reynir aftur við Walker - Neves til Man Utd?
   fim 07. júní 2018 21:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Bjössi Hreiðars um F-riðil: Geta klárlega varið titilinn
Sigurbjörn Hreiðarsson, aðstoðarþjálfari Vals.
Sigurbjörn Hreiðarsson, aðstoðarþjálfari Vals.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þýskaland er ríkjandi Heimsmeistari.
Þýskaland er ríkjandi Heimsmeistari.
Mynd: Getty Images
Sigurbjörn vonar að Svíþjóð fari upp úr riðlinum.
Sigurbjörn vonar að Svíþjóð fari upp úr riðlinum.
Mynd: Getty Images
Leroy Sane fer ekki á HM.
Leroy Sane fer ekki á HM.
Mynd: Getty Images
Í dag er vika í að Heimsmeistaramótið í Rússlandi taki af stað. Opnunarleikurinn er á milli Rússlands og Sádí-Arabíu í Moskvu 14. júní. Úrslitaleikurinn verður á sama velli, í Moskvu, 15. júlí.

Fótbolti.net hitar vel upp fyrir mótið, en spá okkar fyrir F-riðil má sjá hér að neðan.

Spá Fótbolta.net fyrir F-riðil:

1. sæti. Þýskaland, 44 stig
2. sæti. Mexíkó, 26 stig
3. sæti. Svíþjóð, 23 stig
4. sæti. Suður-Kórea, 17 stig

Við höfum fengið nokkra sérfræðinga í að aðstoða okkur. Einn sérfræðingur mun líta yfir hvern og einn riðil á mótinu og tjá lesendum skoðun sína.

Sigurbjörn Hreiðarsson, aðstoðarþjálfari Íslandsmeistara Vals, fjallar um F-riðil fyrir okkur.

Að Svíar fari með Þjóðverjum
Í F-riðlinum spila Mexíkó, Suður-Kórea, Svíþjóð og ríkjandi Heimsmeistarar Þýskalands.

„Þessi riðill mun spilast þannig að Þýskaland vinnur hann nokkuð örugglega og baráttan um annað sætið stendur svo milli Svía og Mexíkóa. Sá leikur riðilsins sem skiptir mestu máli verður sá næst-síðasti þegar Svíþjóð mætir Mexíkó í hreinum úrslitaleik. Ég tippa á að Svíar fylgi Þjóðverjum upp úr riðlinum eða ég vona það að minnsta kosti," segir Sigurbjörn.

„Aðalbaráttan verður um annað sætið milli Svía og Mexíkó. Þjóðverjar vinna örugglega og Suður-Kórea verður í neðsta sæti riðilsins."

Sagt er að það sé alltaf erfiðara að verja titil en að vinna hann í fyrsta sinn. Geta Þjóðverjar leikið eftir afrek Brasilíu frá 1962 og unnið titilinn eftirsótta í annað skipti í röð?

„Þjóðverjar geta klárlega varið titilinn. Þeir eru auðvitað með svakalega hefð og svo eru þeir með það hugarfar sem þarf til að vinna, gríðarlegur andlegur styrkur ofan á mikla hæfileika gerir þá alltaf líklega til að vinna svona keppnir."

„Hitt liðið sem fer uppúr þessum riðli, Svíar, held ég að komist ekki lengra en 16 liða úrslit. Ég hef trú á að Brasilíumenn vinni E-riðilinn og slái Svíana út," segir Sigurbjörn.

Sane og Zlatan
Það vakti mikla athygli á dögunum þegar Joachim Löw, landsliðsþjálfari Þýskalands til margra ára tilkynnti landsliðshóp sinn að hann skyldi skilja Leroy Sane fyrir utan hann. Sane átti stóran þátt í því að Manchester City varð Englandsmeistari á tímabilinu og það kom því mörgum á óvart að sjá að hann væri ekki að fara með á HM.

Sjá einnig:
HM hópur Þýskalands: Sane ekki valinn

„Mér finnst það miður að Sane skuli ekki spila á HM. Mér fannst hann sérstaklega skemmtilegur með Man City og hann hefur svona eiginleika sem dregur fólk á völlinn. Við Íslendingar þekkjum hann vel og þetta er svekkjandi. En hópurinn er gríðarlega sterkur hjá Þjóðverjum samt sem áður," segir Sigurbjörn.

Annar leikmaður sem mun ekki spila á HM er Zlatan Ibrahimovic. Hann hætti með sænska landsliðinu eftir EM 2016, en ýjaði svo að því að hann myndi snúa aftur fyrir HM. Svíar kölluðu hann hins vegar ekki til og Zlatan verður ekki með. Fótboltaáhugamenn munu eflaust sakna Zlatan, en Bjössi telur að Svíarnir njóti góðs af því að hafa þennan stóra persónuleika fyrir utan liðið.

„ Ég held að það hafi bara fín áhrif á Svíana að Zlatan standi við þá ákvörðun að vera hættur með landsliðinu. Auðvitað er hann frábær leikmaður og ultra stór persónuleiki, besti leikmaður liðsins í gegnum árin og myndi styrkja pappírinn gríðarlega, en ég er ekki viss með að hann myndi styrkja liðsheildina að sama skapi jafnmikið."

„Svíar komust á HM eftir að hafa aðlagað sig að spila án hans og ég held það myndi bara draga úr þeim styrk með hann inni. Leikurinn færi að snúast um hann aftur," segir Sigurbjörn.

En fyrst leikmenn eins og Sane og Zlatan eru ekki með, hvaða leikmaður mun stela senunni í þessum riðli?

„Ég hef trú á að Mesut Özil verði mjög góður í þessum riðli fyrir Þjóðverjana sem og Toni Kroos. Forsberg fyrir Svíana, Koo (Ja-cheol) fyrir Suður-Kóreu og Raul Jimenez fyrir Mexíkó. En Özil verður heitastur, eitthvað sem segir mér það," sagði Bjössi að lokum.

Sjá einnig:
Elísabet rýnir í A-riðil: Eiga ekki séns án Salah
Heimir Guðjóns rýnir í B-riðil: Barátta Portúgals og Íran
Óli Stefán rýnir í C-riðil: Bendtner tekur fyrirsagnirnar
Óli Kristjáns um D-riðil: Ekkert er ómögulegt
Harpa Þorsteins um E-riðil: Mega ekki vera á grín tempói
Athugasemdir
banner