Man Utd eflir leit sína að liðsstyrk - David ofarlega á blaði - Ítölsk félög vilja Greenwood - Liverpool vill Olise
banner
   fös 17. maí 2024 08:30
Elvar Geir Magnússon
Í fyrsta sinn á árinu sem Fylkir vinnur lið í sömu deild
Þórður skoraði tvö mörk og hefði hæglega getað gert fleiri.
Þórður skoraði tvö mörk og hefði hæglega getað gert fleiri.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
„Það er geggjað að skora þrjú mörk og fá sjálfstraust í liðið," sagði Þórður Gunnar Hafþórsson leikmaður Fylkis eftir 3-1 sigur gegn HK í 16-liða úrslit Mjólkurbikarsins í gær.

Þetta var kærkominn sigur fyrir Fylkismenn sem hafa átt erfiða byrjun í Bestu deildinni og eru aðeins með eitt stig, sitja í neðsta sæti án sigurs.

Sigrar Fylkis í Reykjavíkurmótinu og Lengjubikarnum voru allir gegn liðum í neðri deildum og þá unnu Árbæingar sigur gegn Hetti/Huginn í umferðinni á undan í bikarnum. Þetta var því fyrsti sigur Fylkis á árinu gegn liði sem er í Bestu deildinni.

Þórður var ánægður með frammistöðuna og ekki síst niðurstöðuna.

Lestu um leikinn: Fylkir 3 -  1 HK

„Ég er mjög sáttur við þetta. Við hefðum í raun getað unnið stærra, við keyrðum á þá og hefðum viljað skora fleiri en 3-1 er bara geggjað. Við erum komnir áfram," segir Þórður. En hefði hann ekki viljað ná inn þrennunni sjálfur?

„Tvö mörk er nóg, svo lengi sem við vinnum leikinn."

Anton Freyr Jónsson fréttamaður Fótbolta.net á vellinum valdi Þórð mann leiksins. „Þórður Gunnar var frábær á vellinum í dag og hefði léttilega geta skorað svona fimm mörk," skrifaði Anton í skýrslu um leikinn.

Þórður segist vonast eftir heimaleik í 8-liða úrslitum en dregið verður á þriðjudag.


Athugasemdir
banner
banner