Varane, Diaz, Matip, Yamal, Davies og Rashford koma við sögu
   sun 10. mars 2024 20:59
Ívan Guðjón Baldursson
Hákon Arnar byrjaði í jafntefli - Langþráður sigur Eupen
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Hákon Arnar Haraldsson var í byrjunarliði Lille er liðið tók á móti Rennes í franska boltanum í dag.

Hákon byrjaði úti á vinstri kanti en tókst ekki að skora eða skapa mark og leiddu gestirnir frá Rennes 0-2 í leikhlé.

Hákoni var skipt útaf á 58. mínútu og átti Lille mjög góðan seinni hálfleik. Sóknarþungi heimamanna skilaði sér þó ekki fyrr en á lokakaflanum, þegar Jonathan David tók til sinna ráða.

David minnkaði muninn á 84. mínútu og skoraði svo jöfnunarmark í uppbótartíma til að bjarga verðskulduðu stigi.

Lille er í fjórða sæti eftir jafnteflið, sex stigum fyrir ofan Rennes í harðri evrópubaráttu.

Mikael Egill Ellertsson var þá í byrjunarliði Venezia í B-deild ítalska boltans, þar sem Feneyingar lögðu Bari að velli með þremur mörkum gegn einu.

Mikael spilaði fyrstu 73 mínútur leiksins og fékk Bjarki Steinn Bjarkason að spreyta sig á lokakaflanum.

Venezia er í toppbaráttu Serie B deildarinnar og er með leikmenn á borð við Joel Pohjanpalo og Christian Gytkjær innanborðs, sem skoruðu báðir í sigrinum í dag.

Óttar Magnús Karlsson lék allan leikinn í 2-1 tapi Vis Pesaro í ítölsku C-deildinni, en þar eru Óttar og félagar í fallbaráttu.

Í belgíska boltanum vann Eupen langþráðan sigur til að lyfta sér úr botnsæti deildarinnar. Eupen lagði St. Truiden að velli og var Guðlaugur Victor Pálsson á sínum stað í hjarta varnarinnar.

Alfreð Finnbogason kom inn af bekknum á 87. mínútu en lokatölur urðu 1-0 eftir mark sem Renaud Emond skoraði snemma leiks.

Eupen gerði vel að næla sér í þrjú stig sem geta reynst afar mikilvæg í fallbaráttunni sem er framundan.

Að lokum var Hörður Björgvin Magnússon ekki í hóp hjá Panathinaikos vegna meiðsla, en liðsfélagar hans unnu mikilvægan toppslag í grísku deildinni þegar þeir heimsóttu Olympiakos í dag.

Daniel Podence kom Olympiakos yfir í fyrri hálfleik en Panathinaikos svaraði með þremur mörkum og lyfti sér upp í þriðja sætið með sigri.

Panathinaikos er þar aðeins þremur stigum á eftir toppliði AEK frá Aþenu.

Lille 2 - 2 Rennes

Venezia 3 - 1 Bari

Arezzo 2 - 1 Vis Pesaro

Eupen 1 - 0 St. Truiden

Olympiakos 1 - 3 Panathinaikos

Athugasemdir
banner
banner