Varane, Diaz, Matip, Yamal, Davies og Rashford koma við sögu
   mán 11. mars 2024 19:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Raggi útskýrir hvers vegna hann yfirgaf landsliðið í Bandaríkjunum - Vanvirðing og leiðinlegar æfingar
Lék alls 97 landsleiki.
Lék alls 97 landsleiki.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnar Þór Viðarsson og Eiður Smári Guðjohnsen.
Arnar Þór Viðarsson og Eiður Smári Guðjohnsen.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Raggi lék sína síðustu landsleiki haustið 2020.
Raggi lék sína síðustu landsleiki haustið 2020.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ragnar Sigurðsson, fyrrum landsliðs- og atvinnumaður í fótbolta og nú aðstoðarþjálfari HK, var til viðtals í hlaðvarpsþættinum Chess After Dark á dögunum.

Í viðtalinu sagði hann frá því hvers vegna hann hefði yfirgefið herbúðir landsliðsins sumarið 2021 þegar framundan var vináttuleikur við Mexíkó og svo leikir gegn Færeyjum og Póllandi. Á sínum tíma var sagt frá því að Raggi hefði dregið sig úr landsliðshópnum af persónulegum ástæðum.

Á þessum tíma var Raggi án félags eftir að hafa yfirgefið úkraínska félagið Rukh Lviv. Hann hafði verið í landliðshópnum tveimur mánuðum áður en meiddist í verkefninu og spilaði ekkert. Um sumarið samdi hann svo við Fylki og lauk þar ferlinum. Fótbolti.net reyndi á sínum tíma að fá svör frá Ragga hvers vegna hann hefði yfirgefið landsliðshópinn en miðvörðurinn vildi ekki tjá sig. Nú hins vegar, eftir að ferlinum er lokið, var hann tilbúinn að segja hvers vegna hann fór frá Bandaríkjunum.

Arnar Þór Viðarsson var landsliðsþjálfari á þessum tíma og Eiður Smári Guðjohnsen var honum til aðstoðar.

„Ég sagði við Arnar eftir að hann tók við að mig langaði að vera áfram í landsliðinu. Þetta snerist ekki um að ná 100 landsleikjum, ég hefði náð þeim ef ég hefði viljað það," sagði Ragnar sem lauk ferlinum með 97 leiki. Hann útskýrði að á seinni stigum landsliðsferilsins hafði hann beðið um að spila ekki alla leikina í landsleikjagluggunum svo hann gæti komið ferskur til baka til félagsliðsins eftir verkefnið.

„Þjálfararnir vissu að ég vildi vera í hópnum. Ég hugsaði að ef ég fengi einhverja landsleiki, væri ennþá í hópnum, þá gæti ég fengið betra 'múv'. Svo var verið að velja hópinn og ég ekki látinn vita að ég sé í hópnum. Þetta var ekki alvöru leikur, utan landsleikjaglugga og margir leikmenn frá Skandinavíu og Íslandi í hópnum. Ég var ekki að fá kallið og ekki eins og það hafi verið einhver pása á mínum landsliðsferli. Svo loksins hringir Eiður í mig og ég spyr hann hvað sé í gangi, er ekki verið að fara velja mig í þennan hóp? Þá sagði Eiður að ég væri á biðlista," sagði Raggi sem var ekkert alltof kátur með að heyra það, taldi sig betri en það.

„Ég var búinn að heyra að það væru einhverjir gæjar úr Keflavík í liðinu. Ég vissi ekki hvaða gaurar það voru, þeir áttu að vera í hópnum en ekki ég. Ég var á 'standby' ef þeir myndu ekki komast, þetta var alveg fáránlegt. Ég vissi ekki hvernig ég átti að meðtaka þetta."

„Daginn eftir hringir Arnar í mig og segir að ég sé að fara með í þessa ferð. Mér fannst gott að fá þá staðfestingu, en hugsaði hvort ég gæti farið, hvort ég væri of móðgaður, en ég sagði ekki neitt því ég hafði brennt mig aðeins of oft á því að segja allt sem ég hugsa án þess að hugsa út í afleiðingar."

„Ég var heima hjá mömmu um kvöldið og sagði henni að mig langaði ekki að fara í þessa ferð, finnst þetta svo mikil vanvirðing. En ég vissi ekki hvort það væri rétt hjá mér að finnast það. Ég sé það núna. Mömmu fannst þetta algjört kjaftæði, ég er alltaf bestur fyrir henni, en hún var alveg að meina þetta og ekki að lesa þetta vitlaust."

„Ég sló til en fór gegn minni sannfæringu. Svo þegar við vorum komnir út þá, hreinskilnislega sagt, þá voru þetta ógeðslega leiðinlegar æfingar sem ég var ekkert að fíla, ég hafði engan skilning fyrir þeim og enga trú á þeim. Ég sagði að ég nennti ekki að vera þarna og sagðist þurfa að fara heim. Það voru persónulegar ástæður,"
sagði Ragnar.


Athugasemdir
banner