Bayern hefur gert tilboð í Díaz - Liverpool vill Ekitike
   fös 11. júlí 2025 21:03
Ívan Guðjón Baldursson
EM kvenna: Naumt hjá Spáni - Portúgal og Belgía úr leik
Noregur spilar við Ítalíu
EM KVK 2025
Mynd: EPA
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Keppni er lokið í B-riðli Evrópumóts kvenna, þar sem Ítalía fer áfram í útsláttarkeppnina ásamt Spáni þrátt fyrir tap í innbyrðisviðureigninni í kvöld.

Ítalía tók forystuna gegn ógnarsterku liði Spánverja, en þær spænsku náðu að snúa stöðunni við í upphafi síðari hálfleiks.

Elisabetta Oliviero, sem leikur með Lazio, gerði fyrsta mark leiksins strax á tíundu mínútu en Athenea del Castillo var fljót að svara eftir undirbúning frá Alexia Putellas.

Búist var við yfirburðum Spánverja í þessari viðureign en ítalska liðið varðist gríðarlega vel og spilaði frábæran fótbolta þegar færi gafst, en þær spænsku héldu boltanum gríðarlega mikið innan liðsins með hliðarsendingum sín á milli.

Spænska liðið var talsvert sterkara í síðari hálfleik og tók forystuna strax í upphafi þegar Patricia Guijarro kom boltanum í netið.

Þrátt fyrir þokkalega yfirburði Spánverja tókst þeim ekki að skapa sérlega góð færi, á meðan þær ítölsku reyndu að beita skyndisóknum en tókst heldur ekki að skapa mikla hættu. Það var í uppbótartíma sem Esther González innsiglaði sigur Spánverja eftir stoðsendingu frá Putellas.

Lokatölur urðu því 1-3 fyrir Spán sem endar á toppi riðilsins með fullt hús stiga. Ítalía endar í öðru sæti með fjögur stig.

Belgía endar í þriðja sæti eftir sigur gegn Portúgal þar sem Janice Cayman skoraði sigurmarkið seint í uppbótartíma eftir dramatískar lokamínútur. Portúgal lýkur keppni í neðsta sæti riðilsins með eitt stig.

Svekkjandi tap fyrir Portúgal sem var sterkari aðilinn gegn Belgíu en hefði þó ekki komist upp úr riðlinum nema með fimm marka sigri.

Þetta þýðir að Spánn mætir heimakonum í liði Sviss í 8-liða úrslitum á meðan Ítalía spilar við Noreg sem endaði A-riðilinn með fullt hús, þrátt fyrir að sigrarnir hafi verið ósannfærandi.

B-riðill:
1. Spánn 9 stig
2. Ítalía 4 stig
3. Belgía 3 stig
4. Portúgal 1 stig

Ítalía 1 - 3 Spánn
1-0 Elisabetta Oliviero ('10)
1-1 Athenea del Castillo ('14)
1-2 Patricia Guijarro ('49)
1-3 Esther Gonzalez

Portúgal 1 - 2 Belgía
0-1 Tessa Wullaert ('3)
1-1 Telma Encarnacao ('87)
1-2 Janice Cayman ('96)
Athugasemdir