Bayern hefur gert tilboð í Díaz - Liverpool vill Ekitike
   fös 11. júlí 2025 23:45
Ívan Guðjón Baldursson
Aubameyang í viðræðum um endurkomu til Marseille
Ensk úrvalsdeildarfélög áhugasöm
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Framherjinn reynslumikli Pierre-Emerick Aubameyang er í viðræðum við franska félagið Marseille um endurkomu.

Marseille hefur verið að gera flotta hluti undir stjórn Roberto De Zerbi og endaði í öðru sæti frönsku deildarinnar á síðustu leiktíð. Félagið er búið að sanka að sér sterkum leikmönnum og gæti Aubameyang bæst við hópinn í sumar.

Aubameyang er 36 ára gamall og lék síðast með Marseille tímabilið 2023-24, þegar hann skoraði 30 mörk í 51 leik í öllum keppnum. Hann var í kjölfarið seldur til Al-Qadsiah í Sádi-Arabíu og skoraði 21 mark í 36 leikjum þar.

Aubameyang er með eitt ár eftir af samningi við Al-Qadsiah og er að semja við félagið um starfslok. Al-Qadsiah er að kaupa Mateo Retegui frá Atalanta og hefur því ekki lengur þörf á Aubameyang.

Al-Qadsiah borgaði tæplega 10 milljónir evra til að kaupa Aubameyang í fyrra en hann myndi snúa aftur til Marseille á frjálsri sölu. Ljóst er að leikmaðurinn þarf að taka verulega launalækkun á sig til að skipta aftur til Evrópu.

Marseille er þó ekki eina félagið sem er áhugasamt um að tryggja sér þjónustu Aubameyang. Sky Sports greinir frá því að Aubameyang sé einnig í viðræðum við önnur félög frá Sádi-Arabíu, auk tveggja enskra úrvalsdeildarfélaga.

Aubameyang hefur meðal annars leikið fyrir Arsenal, Chelsea, Barcelona og Borussia Dortmund á mögnuðum ferli.
Athugasemdir
banner